Frá sveitarstjórn Húnaþings vestra. Fréttatilkynning
Þann 18. desember sl. samþykkti sveitarstjórn Húnaþings vestra samhljóða fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og fyrirtækja fyrir árið 2009.
Við gerð fjárhagsáætlunarinnar var lögð megináhersla á að standa vörð um grunn- og velferðarþjónustu sveitarfélagsins þrátt fyrir fyrirsjáanlegan tekjusamdrátt. Þess vegna er gjaldsskrárbreytingum almennt stillt í hóf, gjaldskrá leikskóla verður óbreytt og greiðslur vegna frístundakorta barna og ungmenna verða hækkaðar. Útsvarsprósenta verður 13,28% en álagningahlutföll fasteignaskatta eru óbreytt.
Vinna við gerð fjárhagsáætlunarinnar hófst í byrjun októbermánaðar sl. þ.e. um það leyti sem hin alþjóðlega fjármálakreppa hafði náð tökum á íslensku efnahagslífi. Við þær breyttu aðstæður sem þá sköpuðust var ljóst að vinna við gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins yrði erfiðari en áður þar sem mikil óvissa ríkti um megin forsendur hennar. Fulltrúar í meiri- og minnihluta sveitarstjórnar unnu saman að gerð fjárhagsáætlunarinnar fyrir komandi rekstrarár ásamt sveitarstjóra og skrifstofustjóra.
Fjárhagsáætlun ársins 2009 gerir ráð fyrir nokkurri fjárfestingu og framkvæmdum. Einhugur er meðal sveitarstjórnarmanna um þá áherslu að vörukaup og þjónusta verði eins og frekast er kostur sótt til rekstraraðila innan sveitarfélagsins. Vegna þeirrar óvissu sem ríkir um ákveðnar forsendur fjárhagsáætlunarinnar m.a. hvað varðar tekjur og aðgengi að lánsfé verður þó að hafa fyrirvara á einstökum ákvæðum hennar og á það bæði við um rekstur og framkvæmdir.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra er sammála um að fjárhagsáætlun ársins 2009 verði tekin til endurskoðunar í aprílmánuði nk. Þá hefur sveitarstjórn beint þeim tilmælum til forstöðumanna stofnana sveitarfélagsins að á árinu 2009 beiti þeir sér fyrir 3-5% rekstrarhagræðingu í þeim málaflokkum sem undir þá heyra.
Hvammstanga 19. desember 2008
Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.