Förum betri vegi til framtíðar | Frá frambjóðendum Sjálfstæðisflokks

Fimm efstu á lista Sjálfstæðisflokks i Norðvesturkjördæmi. AÐSEND MYND
Fimm efstu á lista Sjálfstæðisflokks i Norðvesturkjördæmi. AÐSEND MYND

Undanfarnar tvær vikur höfum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi ferðast um kjördæmið víðfeðma sem við bjóðum okkur fram í til þjónustu og hagsmunagæslu. Áskoranirnar eru margar en það er kunnara en frá þurfi að segja hversu bágborið ástand vegakerfis er víðast hvar. Þó að framfarir hafi orðið á sumum svæðum á allra síðustu árum eru samt til staðar þjóðvegir sem lagðir voru fyrir rúmri hálfri öld og þóttu þá frekar bágbornir.

Vegakerfið verður að tryggja að íbúar geti án mikillar áhættu ferðast á milli staða, m.a. til að sækja heilbrigðisþjónustu og má ekki hefta verðmætasköpun. Slíkt öryggi er ekki til staðar fyrir alla og í raun með ólíkindum hversu vel þó hefur tekist til í mikilli uppbyggingu atvinnulífs undanfarin ár, til að mynda á Vestfjörðum. Þetta ástand er með öllu óboðlegt ekki síst í ljósi þeirrar miklu verðmætasköpunar sem verður til í kjördæminu.

Bætum þjónustu

Eitt er að leggja veg og annað að þjónusta þá er um veginn fara. Vetrarþjónustu verður að laga að þörfum íbúa og atvinnulífs hverju sinni. Könnun Vestfjarðastofu bendir til þess að stór hluti íbúa á Vestfjörðum veigri sér við að fara á milli byggðarlaga að vetri til og kemur því í veg fyrir að þær samgöngubætur sem þó hafa orðið nýtist að fullu eins og milli suður- og norðursvæðis Vestfjarða. Við svo búið verður ekki unað. Á Snæfellsnesi þurfa sjúkraflutningamenn að gefa sjóveikispillur áður en brunað er suður með sjúklinga og á Norðurlandi vestra, líkt og víðar, getur verið erfitt að sækja heilbrigðisþjónustu ef fjallvegir eru ófærir. Að endingu er rétt að nefna ónýta vegi í Dölum þar sem t.a.m. var “ráðist “ í endurheimt malavega sl. vor í ljósi þess hve slitlag sem og burðarlag var orðið ónýtt og í raun hættulegt. Hér er minnst á nokkur dæmi en áfram væri hægt að telja upp en látum þetta duga, við verðum að gera betur í vegamálum almennt.

Bætum vinnubrögð

Eitt af brýnustu verkefnum þingmanna Norðvesturkjördæmis verður að tryggja að íbúar kjördæmisins verði jafnokar annarra landsmanna í samgöngum. Það er með öllu óásættanlegt að mistök við skipulagningu einnar framkvæmdar í vegamálum verði þess valdandi að bráðnauðsynlegum og yfirstandandi framkvæmdum í öðrum landshlutum sé frestað líkt og gerðist nýverið með brúargerð við Hornafjarðarfljót.

Flýtum framkvæmdum

Til þess að flýta nauðsynlegum framkvæmdum þarf kjark til að ræða nýjar leiðir að því markmiði. Hugmyndir nýstofnaðs Innviðafélags Vestfjarða eru mikilvægt innlegg í þá átt. Það má líka horfa til hluta sem vel hafa heppnast þrátt fyrir allt. Uppbygging Hvalfjarðarganga og sú leið sem farin var við fjármögnun þeirra og rekstur er skýrt dæmi um vel heppnaða framkvæmd. Þá er nauðsynlegt að halda áfram að berjast fyrir þeirri leið sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til á Alþingi og er kölluð Samfélagsvegir. Með þeirri leið er heimamönnum fært ákveðið frumkvæði um forgangsröðun og tímasetningu framkvæmda. Færeyingum hefur gengið vel enda byggir framkvæmdasemi þeirra nokkuð á „Spalaraðferðinni“ sem var notuð við Hvalfjarðargöngin. Við höfum gert þetta áður og getum gert þetta aftur.

Ágætu kjósendur í Norðvesturkjördæmi, framboðslisti okkar fyrir alþingiskosningar þann 30. nóvember 2024 er samansettur af einstaklingum sem láta verkin tala og þora að hugsa í lausnum þannig að samfélagið standi sterkar að vígi en áður. Við þurfum að snúa bökum saman og efla innviði í Norðvesturkjördæmi – við erum til samstarfs og þjónustu reiðubúin.

Ólafur Adolfsson
Björn Bjarki Þorsteinsson
Auður Kjartansdóttir
Dagný Finnbjörnsdóttir
Kristófer Már Maronsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir