Forseti kosinn til forystu :: Leiðari Feykis

Samkvæmt dagskrá lýkur 45. þingi ASÍ í dag eftir kosningar um forseta. Eins og allir vita sem eitthvað fylgjast með fréttum hefur gustað um verkalýðshreyfinguna síðustu misseri og sagði Drífa Snædal af sér embætti forseta sambandsins í ágúst sl. enda átök innan þess verið óbærileg að hennar mati og dregið úr vinnugleði og baráttuanda.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tilkynnti fyrir nokkru að hann myndi fara í framboð til forseta ASÍ ef hann fengi nægan stuðning og nú rétt fyrir þing ákvað Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar, að bjóða sig fram gegn Ragnari.

Ljóst er að mikil átök eru innan ASÍ um völd og framtíðaráherslur en sambandið er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu með um tvo þriðju hluta launamanna í skipulögðum samtökum á Íslandi innanborðs.

En skjótt skipast veður í lofti því þegar leiðara vikunnar hafði verið skilað til uppsetjara og blaðið nánast klárt til prentunar voru þau Ragnar Þór og Ólöf Helga enn í framboði en áður en prentplötur voru keyrðar út var orðið ljóst að Ragnar Þór hafði dregið sig til hlés, ásamt Vilhjálmi Birgissyni og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem höfðu boðið fram krafta sína til miðstjórnar og leiðarinn því ótækur til prentunar óbreyttur.

Svo virðist sem ASÍ sé klofið í herðar niður eftir tíðindi dagsins og óljóst hvernig mál þróast en vonandi ber nýjum forseta gæfa til að ýta eigin valdahagsmunum til hliðar og vinna af krafti fyrir þá 127 þúsund félagsmenn sem enn eru skráðir í ASÍ. Ekki veitir af, því kjarasamningar meirihluta launþega á íslenskum vinnumarkaði eru u.þ.b. að renna út.

Góðar stundir!
Páll Friðriksson

Uppfært kl. 13:10:
Þingi Alþýðusambands Íslands hefur verið frestað fram á næsta vor. Sitjandi forseti ASÍ og formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Kristján Þórður Snæbjarnarson, leiðir sambandið í kjaraviðræðum vetrarins. Sjá nánar í frétt RÚV HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir