Flutu sofandi að feigðarósi
Feykir tekur upp hjá sér að birta sem frétt á vef sínum, mánudaginn 15. des síðastliðinn, bloggfærslu Einars Kristins Guðfinnssonar sem nefnd er “Skítt og laggóstefnunni hafnað” Er þar að finna enn eina tilraunina til að leiða athygli almennings frá gjaldþroti stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins og þeirra flokka, sem lagst hafa með honum í frjálshyggjufenið
Þegar öllu er á botninn hvolft, hafa stjórnvöld gert eitthvað annað undanfarin ár en að fylgja skítt og laggóstefnu? Væri ráðherranum ekki nær að líta í eigin barm? Til ríkisstjórnar, sem þverneitar að axla ábyrgð á því að koma þjóðinni í þrot?
Ef ráðum Vinstri grænna, sem hann vegur að í pistli sínum, hefði verið fylgt væri nú öðruvísi komið fyrir íslenskri þjóð.
Ég tel að öllum sé það ljóst að undanfarin þrjú eða fjögur ár hafa forustumenn Vinstri grænna varað mjög við afleiðingum þeirrar stefnu sem stjórnvöld ráku, ásamt fjölda annarra málsmetandi manna. Ekkert var hins vegar aðhafst og afleiðingin var algert hrun bankakerfisins vegna aðgerðaleysis stjórnvalda, sem höfðu ekki einusinni tiltæka áætlun af nokkru tagi. Flutu sofandi að feygðarósi.
Er Einari ekki kunnugt um nýyrði sem til varð á haustmánuðum, sögnin “að Hardea” í merkingunni “að sitja aðgerðalaus”?
Og segja svo, að sem betur fer ræður þessi óábyrga stefna ekki för núna!!
Eftrifarandi er tekið af síðu Indriða H. Þorlákssonar, fyrrum ríkisskattstjóra, þar sem hann fjallar um leiðir úr kreppunni og birtir í dag, 16 des: “Hér þar sem þörfin er mest heyrist lítið frá stjórnvöldum um þessi mál. Engar hugmyndir eru ræddar, engar tillögur lagðar fram”
Ég tel að ráðherra væri sæmara að útskýrða fyrir okkur hver rökin eru fyrir því að skerða tekjur bænda um allt að 800 milljónir á meðan 1.152 milljónir eru ætlaðar í nýja Varnarmálastofnun. Ég hélt að bændur væru einna síst aflögufærir.
Hvort hann telji, eins og Ingibjörg Sólrún samráðherra hans, að aukinn skattur á háar tekjur sé einungis táknrænn á meðan gert er ráð fyrir skerðingu í almannatryggingakerfinu og sjúklingar borgi fyrir að leggjast inn á sjúkrahús.
Það er af nógu að taka og verðugt verkefni fyrir fréttamenn Feykis að rýna aðeins í fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2009. Það sem lagt er til þar kemur okkur öllum við, ekki síst áframhald ójöfnuðar í landinu
Gísli Árnason
Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.