Fljótsdalsfræðingar reyndust spakvitrari í Útsvari

Lið Skagafjarðar í spurningaþættinum Útsvari laut síðastliðið föstudagskvöld í lægra haldi fyrir spræku liði Fljótsdalshéraðs sem skipað var gáfnaljósum með nánast óeðlilega þekkingu á blómum, sögu og öðrum fróðleik sem einkum gagnast í spurningaleikjum af þessu tagi. Leikurinn tapaðist  49-96 (svipað og í körfunni).

Skagfirðingar voru sprækir á fyrstu metrunum og náðu að velgja Fljótsdalsfræðingum undir uggum. Að loknu bjölluhlaupi og vísbendingaspurningum hafði Skagafjörður náð ágætu forskoti en það fór fyrir lítið í leikþættinum og að lokum sprakk liðið á limminu. Einhverjir mundu kannski segja að lið Fljótsdalshéraðs hafi verið nokkuð heppið með spurningar; þær voru kannski ekki auðveldar en féllu vel að heilasellum þeirra og áhugamálum.

Þátturinn var skemmtilegur og góð stemning meðal keppenda skilaði sér heim í stofu. Bæði lið höfðu ætlað að mæta til leiks með gjafir handa andstæðingum sínum en svo skemmtilega vildi til að bæði lið gleymdu gjöfunum heima. Kristján B tjáði Fljótsdalsfræðingum að þeir hefðu átt að fá Sögu Kaupfélags Skagfirðinga að gjöf en reyndar var áhugi Héraðsbúa fyrir bókinni mismikill.

Þá var reynslubolta Skagfirðinga, Ólafi  Sigurgeirssyni, bent á að þetta væri hans þriðja ár í Útsvari og fannst honum jafnvel nóg komið. Þóra Arnórs spyrill tjáði honum þá á að árangur Skagafjarðar hefði batnað með hverju árinu og því freystandi fyrir hann að halda áfram.

Skagfirðingar eru stoltir af sínu liði og óska Kristjáni, Ingu Maríu og Ólafi til hamingju með árangurinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir