Fjörufugl, skrautlegur og kvikur

Það fór vel á með fjörufuglunum á Sauðárkróki í gær en hér má sjá æður í forgrunni, fastagest í höfninni og tildru fargest sem senn fer að hafa sig á brott til varpstöðvanna lengst í norðri. Mynd: PF.
Það fór vel á með fjörufuglunum á Sauðárkróki í gær en hér má sjá æður í forgrunni, fastagest í höfninni og tildru fargest sem senn fer að hafa sig á brott til varpstöðvanna lengst í norðri. Mynd: PF.

Þeir eru margir hverjir litskrúðugir fiðruðu ferðalangarnir sem staldra við á Íslandi áður en haldið er til fjarlægari landa líkt og tildran sem velti til smásteinum og rótaði í fjörugróðri í höfninni á Sauðárkróki í gær. Var hún í góðum félagsskap æðarfugla, kría og tjalda er blaðamaður reyndi að ná fuglinum á mynd sem féll vel inn í umhverfið og ekki endilega gott að koma auga á fyrr en hann hreyfði sig.

Það var Ingólfur Sveinsson á Sauðárkróki sem vakti athygli Feykis á tildrunni en hann er skarpgreindur þegar kemur að öllu því er að náttúrunni lútir. Sagði hann að í gegnum tíðina hafi mátt sjá stóra hópa af tildru í fjörum úti á Skaga á þessu tíma áður en flogið er norður á bóginn en sjaldgæfara að sjá hana við Sauðárkrók.

Tildra er fremur lítill fjörufugl, skrautlegur og kvikur, segir á Fuglavefnum en í sumarfiðri er hún rauðbrún að ofan, með svartar rákir á höfði og bringu og hvít að neðan.

„Höfuðið er hvítt og kollurinn rákóttur. Á veturna er hún öll grárri og litdaufari og það sama gildir um ungfugla, sem virðast hreistraðir á baki. Hvít bak- og vængbelti eru áberandi á flugi. Kynin eru svipuð, en karlfuglinn skærlitari á sumrin.“

Þá segir einnig að tildran dragi nafn sitt á mörgum tungumálum af því háttalagi að velta við steinum og þangi í fjörunni í leit að æti en á veforðabók Snöru segir að sagnorðið tildra merki að smíða óvandlega eða hrófa upp.

Útbreiðsla og ferðir

Tildra er fargestur og vetrargestur. Varpfuglar á Grænlandi og Norðaustur-Kanada hafa hér viðdvöl vor og haust á leið sinni milli varpstöðvanna og vetrarstöðva í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku. Nokkur hundruð tildrur dvelja allan veturinn í fjörum Suðvestanlands og slæðingur af geldfugli er hér allt sumarið, segir ennfremur á fuglavefur.is.
Fuglinn verpur ekki á Íslandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir