Fjórir Húnvetningar Íslandsmeistarar í íshokkí með SA
Skautafélag Akureyrar hampaði á dögunum Íslandsmeistaratitlinum í kvennaflokki í íshokkí. SA lagði þá Björninn að velli í úrslitaleik. Í liði SA leika fjórir Húnvetningar. Þetta eru þær Jónína Margrét Guðbjartsdóttir Guðmundssonar, Margrét Arna Vilhjálmsdóttir Stefánssonar, Arndís Eggerz Sigurðardóttir Ólafssonar og Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir Jónssonar.
Vinna þurfti tvo leiki í úrslitaeinvíginu til að hampa Íslandsmeistaratitlinum. Grípum hér niður í fréttaskýringu www.ruv.is úr úrslitaleiknum en einvígið fór í 3 leiki. „Arndís Sigurðardóttir kom Akureyringum yfir í fyrstu lotu og Guðrún Blöndal jók svo muninn í 2:0. Anna Sonja Ágústsdóttir skoraði þriðja mark leiksins fyrir Norðankonur og Birna Baldursdóttir gulltryggði svo sigurinn þegar hún skoraði fjórða mark SA sem er því Íslandsmeistari í kvennaflokki árið 2010. Liðið samanstendur af mörgum ungum og efnilegum leikmönnum sem spiluðu vel í kvöld og áttu stóran þátt í sigrinum. Skautafélag Akureyrar var því sigursælt í vetur, því félagið varð einnig Íslandsmeistari í karlaflokki á tímabilinu“.
Það skal í lokin segja frá því að í lokahófi Íshokkídeildar SA var Margrét Arna svo valin mikilvægasti leikmaðurinn í SA senior og Arndís var talin hafa sýnt mestu framfarirnar í SA senior.
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.