Fjör í Húnavallaskóla

Mynd: Húnavallaskóli

Litlu-jólin voru haldin hátíðleg í Húnavallaskóla þann 19. desember.  Klukkan 10:00 komu krakkarnir í skólann með skólabílunum.  Stofujólin hófust tuttugu mínútum seinna og stóðu til klukkan 11:30.

Á stofujólum fara nemendur með umsjónarkennurum sínum í kennslustofur.  Skipst er á gjöfum, boðið er upp á sælgæti, lesnar eru sögur, spilað eða eitthvað annað gert, sér til gamans.  Klukkan 11:45 hófst síðan borðhaldið sem var glæsilegt sem fyrr.  Ýmsir góðir gestir heiðruðu okkur með nærveru sinni og má þar nefna nemendur og starfsfólk leikskólans ásamt öðru góðu fólki. 

Strax að loknu borðhaldi eða klukkan 13:30 hófust skemmtiatriðin með leik Lúðrasveitar tónlistarskólans undir stjórn Skarphéðins Einarssonar.  Leikskólabörnin stigu sín fyrstu spor á sviði og sungu fyrir gesti.  Hver bekkurinn af öðrum frá 1. og upp í 7. bekk kom síðan fram og flutti okkur ýmsa leikþætti sem tengjast Jólunum og skemmtuninni lauk síðan með því að nemendur í 1.-6. bekk sungu þrjú lög við undirleik Þórunnar Ragnarsdóttur. 

Þess má til gamans geta að Þórunn lék þarna í fyrsta sinn á nýtt píanó skólans sem kom daginn áður.  Þarna er um mjög vandað hljóðfæri að ræða af gerðinni Yamaha og reyndist það í alla staði prýðilega.  Þegar skemmtiatriðum lauk þá hófst sjálft jólaballið en þar fengum við góða gesti sem voru tveir jólasveinar ofan úr fjöllunum.  Þeir voru duglegir að dansa og skemmta sér og öðrum og ekki spillti fyrir að þeir báru með sér tvo þunga poka sem voru fullir af litlum sælgætispokum og fengu öll börn eldri sem yngri hvert sinn pokann.

 Ballinu lauk síðan um klukkan 16:00 og hélt þá yngsta kynslóðin heim með foreldrum eða skólabílum.  Nemendur í 6. til 10. bekk eru þó enn í skólanum þegar þessar línur eru skrifaðar og verða hér til klukkan 21:OO.  Yngri nemendur eru núna í íþróttasalnum en þeir eldri eru að flytja sjoppuna úr kjallaranum og upp í matreiðslustofu auk þess sem nemendur 10. bekkjar undirbúa pylsuveislu fyrir allan hópinn.  Nokkrir gamlir nemendur sem komnir eru í framhaldsskóla taka þátt í gleðinni með okkur og er það okkur mjög til ánægju og heiðurs að þau skuli vilja heimsækja okkur.   Fjörinu lýkur svo með diskóteki og ef að líkum lætur verða það kátir og hressir krakkar sem halda heim í jólafríið í kvöld.         

Þetta kemur fram á vef Húnavallaskóla

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir