Fjölmenni var á fundi um kvefpestina á Hótel Varmahlíð
Það var nánast fullt út úr dyrum á Hótel Varmahlíð í gærkveldi þegar hestamenn af Norðurlandi hittust til þess að ræða um kvefpestina. Ingimar Ingimarsson formaður HSS stjórnaði fundinum fyrir hönd hrossaræktarsambandanna á Norðurlandi sem voru fundarboðendur.
Vilhjálmur Svansson og Sigríður Björnsdóttir fóru vel yfir stöðu mál og upplýstu fundargesti um þá vitnesku sem þau hafa aflað um þessa pest og ræddu hana í tengslum við fyrri faraldra.
Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur ræddi síðan um kynbótasýningar og komandi Landsmót þar sem hann lýsti m.a. annars þeirri skoðun sinni að fresta bæri Landsmóti að sinni og halda það á Vindheimamelum að ári. Í máli dýralæknanna kom m.a. fram að ekki er búið að fá það staðfest hvaða veira það er sem veldur pestinni en góðu fréttirnar eru þær að búið er að útiloka allar helstu gerðir veira sem taldir eru mjög skæðir í hrossum.
Þá kom fram að gjarnan kæmi bakteríusýking í kjölfar veirusýkingarinnar sem myndi þá lengja sjúkdómsferlið hjá hverjum hesti. Bakterían er talin geta þrifist í nokkurn tíma í umhverfinu s.s. í safnstíum og því er mönnum bent á að hreinsa út úr húsum sínum til þess að minnka smitálagið. Fyrir haustið þurfa síðan allir hestamenn að þrífa og sótthreinsa hesthúsin og reiðtygin áður en starfsemi hefst að nýju í húsunum.
Ein spurningin sem Sigríður fékk var um það hvort pestin gæti borist í fólk. Á meðan hún útskýrði að það væri ekki útilokað rak Guðlaugur upp allmikinn hnerra og endaði því sú umræða í almennum hlátri.
Þessi fundur var málefnalegur, umræður líflegar og trúlega gefið uggandi hestamönnum ákveðna ró að fá svör við mörgum af þeim spurningum sem fram komu þó ljóst sé að ýmislegt er enn óljóst varðandi þess óláns pest.
/Horse.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.