Fjöldi mótsgesta talinn um fjögur til fimmþúsund

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Landsmótsins. Aðsend mynd.
Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Landsmótsins. Aðsend mynd.

Landssmót UMFÍ á Sauðárkróki var haldið um síðustu helgi, dagana 12.-15. júlí og var það nú í fyrsta sinn haldið með breyttu sniði sem fjögurra daga íþróttaveisla þar sem allir, 18 ára og eldri gátu skráð sig til leiks og valið úr tæplega 40 íþróttagreinum. 

Keppendur á mótinu voru um 1.300 talsins og segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri mótsins, að þátttakan hafi farið fram úr fyrstu væntingum mótshaldara. Erfitt sé hins vegar að gera sér grein fyrir heildarfjölda mótsgesta en hann segist áætla að um 4-5 þúsund manns hafi mætt á svæðið.

Aðspurður segir Ómar að sannarlega hafi verið almenn ánægja með þetta nýja fyrirkomulag og hafi fjölmargir látið þá skoðun sína í ljós að hér væri um að ræða frábært verkefni sem örugglega væri komið til að vera.

Eru einhverjir viðburðir sem standa upp úr?

„Ég vil ekki taka einn viðburð fram yfir annan því það voru svo margir viðburðir sem heppnuðust frábærlega,“ segir Ómar. „En það sem stendur upp úr var að hér var fólk að hreyfa sig, á sínum forsendum, keppti, lét vaða, lék sér og skemmti sér. Það var tilgangurinn.“

Er farið að huga að því hvert framhaldið verður?

„Það tekur alltaf tíma að koma með svona „nýtt“ verkefni inn á markaðinn og bókin segir að svona viðburður taki um fimm ár að festa sig í sessi. Við munum setjast niður í haust og fara yfir þetta frá a-ö.  Það verður síðan tekin ákvörðun í framhaldinu. Ég er hins vegar fullviss um að við tókum rétta ákvörðun um að breyta mótinu og þetta mun bara stækka og stækka. Hugmyndafræðin um að allir geti tekið þátt er í anda UMFÍ og ég vona sannarlega að við munum halda áfram á þessari braut.“

/FE

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir