Fjöldi fólks við afhjúpun styttunnar af ferjumanninum
Styttan af ferjumanninum var afhjúpuð á áningarstaðnum í Hegranesi eftir hádegi í gær í blíðskaparveðri. Fjöldi fólks var við athöfnina í 23 stiga hita og logni, sennilega einhver afgangur frá Landsmótsveðrinu 2004. Ekki var annað að sjá en að styttan af Jóni Ósmann vekti mikla lukku.
Stefán Guðmundsson flutti stutta tölu áður en klæðinu var svipt af styttunni og í kjölfarið söng Jói í Keflavík við undirleik Rögnvalds organista. Þá sagði Hjalti Pálsson frá ferjumanninum, Árni Ragnarsson kynnti listakonuna Ragnhildi Stefánsdóttur sem skóp ferjumanninn og loks tók Stefán aftur til máls þar sem hann fyrir hönd Áhugahóps um minnisvarða um ferjumanninn greindi frá því að hópurinn færði sveitarfélaginu styttuna að gjöf. Það var síðan Sveinn Guðmundsson, sem átti hugmyndina að gerð styttunnar og heiðurinn af því að koma áhugahópnum á laggirnar, sem færði Guðmundi sveitarstjóra gjafabréf. Guðmundur hélt síðan þakkarorð.
Fjöldi fólks lagði leið sína í Hegranesið til að virða styttuna fyrir sér, bæði í sólinni í gærdag og ekki tók Jón Ósmann sig verr út í kvöldsólinni í gærkvöldi.
/Skagafjörður.com
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.