Fjöldagítarspil á Húnavöku
Skipuleggjendur Húnavöku hvetja alla þá sem einhvern tíma hafa spilað á gítar að taka þátt í mesta fjöldasöng- og gítarspili sem um getur. Ef þú kannt að spila G, C, D, E moll og A moll og verður á Blönduósi á laugardaginn þá er þetta eitthvað fyrir þig!
Ef þú átt kassagítar og kannt vinnukonugripin er um að gera að hlaða niður söngheftinu, prenta það út og æfa sig fyrir Bakkasönginn og fjöldagítarspilið. Ef þú ert meira fyrir sönginn þá er líka kjörið að mæta vel undirbúin(n) til leiks.
Í fyrra voru vel yfir 20 gítarar í Fagrahvammi og takmarkið er að hækka þá tölu. Lögin eru misflókin og misgömul en eiga það sameiginlegt að vera íslensk og hafa ósjaldan verið sungin á mannamótum á Íslandi.
Bakkasöngurinn byrjar með því að Jónsi og félagar úr hljómsveitinni Í svörtum fötum leiða okkur inn í sönginn með einu af sínum þekktari lögum. Síðan rekur hver slagarinn annan. Markmiðið er að skapa einstaka íslenska sumarkvöldstemningu þar sem allir taka þátt í söng og hljóðfæraleik.
Hér má finna söngtexta og gítargrip fyrir Bakkasöng á kvöldvöku 18. júlí 2009
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.