Fjölbrautaskólinn mikilvægur á Norðurlandi vestra
Haldið var upp á 40 ára afmæli Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra síðasta laugardag og var öllum velunnurum skólans boðið til afmælisdagskrár á sal Bóknámshússins. Í tilefni tímamótanna fékk skólinn 10 milljón að gjöf frá KS. Að lokinni dagskrá var boðið upp á opið hús í öllu húsnæði skólans.
Ingileif Oddsdóttir, skólameistari, bauð gesti velkomna, setti hátíðina og fór yfir sögu skólans sem settur var í fyrsta sinn 22. september 1979, þá undir heitinu Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki. Fram kom í máli hennar að brautskráðir nemendur frá upphafi væru orðnir 2663 og fjöldi starfsfólk skólans væru nú um 60 manns. Í lokin las hún upp kveðju Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarráðherra, þar sem hún óskaði skólanum til hamingju með áfangann. „Skólinn er gríðarlega mikilvægur fyrir framþróun samfélagsins. Eftir því er tekið hversu mikill metnaður er lagður í fræðslumál á öllum skólastigum hér í byggðalaginu. Þessi metnaður mun skila sér margfalt öflugra samfélagi okkur öllum til heilla,“ segir í kveðjunni.
Ásta Pálmadóttir flutti ávarp fyrir hönd skólanefndar FNV og bar kveðju formanns skólanefndar Gunnsteins Björnssonar, sem ekki hafði tök á að vera viðstaddur. Benti hún á mikilvægi menntunar sem þó er ekki sjálfgefin og ekki gripin upp af götunni. „Við erum stödd hér í dag vegna framgangs og dugnaðar fjölda fólks sem við getum öll verið stolt af,“ sagði Ásta meðal annars.
Jón F. Hjartarson, fyrrverandi skólameistari, sagði frá aðkomu sinni við skólann og lýsti því vel hve þungum steinum varð oft að hreyfa til að greiða götu skólans. Hann þakkaði öllum þeim sem hann hafði átt samstarf við í gegnum tíðina og ekki síst þeim sem voru hvað erfiðastir við hann. Þeir hefðu líka gert gagn á vissan hátt.
Formaður stjórnar SSNV, Þorleifur Karl Eggertsson, sagði frá mikilvægi skólans fyrir Norðurland vestra enda ekki sjálfgefið að á svæðinu væri starfræktur framhaldsskóli. Útskýrði hann hvernig dreifnámið hefði breytt miklu fyrir nemendur. „Það er sú stærsta breyting sem sem hefur átt sér stað fyrir menntun á Norðurlandi vestra er dreifnámið. Þetta er ómetanlegt fyrir alla að geta stundað nám heiman frá sér, verið tveimur árum lengur heima,“ sagði Þorleifur Karl og þakkaði síðan öllum þeim sem að uppbyggingu skólans komu.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, ávarpaði samkomuna. „Þessi fjölbrautaskóla hefur haft gott orð á sér og her er mikið og öflugt námsframboð, góðir kennarar og góð aðstaða fyrir nemendur. Þó upptöku svæði skólans sé sérstaklega hugsað fyrir norðurland vestra þá hafa nemendur komið vítt og breitt frá öðrum landshornum í skólann og verið mjög ánægðir með dvöl sína hér,“ sagði Lilja sem þekkir dæmi um slíkt.
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, kom færandi hendi í tilefni tímamótanna og afhenti skólameistara peningagjöf upp á 10 milljónir króna. Rakti hann mikilvægi skólans fyrir atvinnulíf í Skagafirði sem líklega væri eins öflugt í dag fyrir tilstilli skólans. „Ég vona að það sé gagnkvæmt, að Fjölbrautaskólinn njóti þess að hér sé öflugt og traust og framsækið atvinnulíf,“ sagði Þórólfur einnig.
Rannveig Sigrún Stefánsdóttir, nemandi við skólann, leit út um glugga fortíðar og inn um glugga samtímans og minntist á börn á flótta sem ekki njóta menntunar. Tók hún dæmi úr íslenskum veruleika. „Yfir 300 börnum sem sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi hefur verið vísað burt síðustu sex ár. Íslenska ríkið hefur ekki treyst sér til að taka á móti þeim. Þessir gestir verða að leita annað,“ sagði hún en áður hafði Rannveig farið með erindi úr Hávamálum er fjallar um gestrisni.
Þeir félagar Sæþór Már Hinriksson og Eysteinn Ívar Guðbrandsson, sem skipa dúettinn Semí, nemendur við FNV, heilluðu viðstadda með söng og gítarspili og óhætt að hvetja þá áfram á þessari braut.
Eftir að Ingileif hafði slitið samkomunni bauð hún öllum að skoða þau húsnæði sem hýsa hina fjölbreyttu starfsemi skólans.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.