Fjallmyndarlegur sigur Tindastóls á Ásvöllum
Lið Tindastóls lék fjórða leik sinni í B-riðli 4. deildar í gær en þá mættu strákarnir liði KÁ á Ásvöllum í Hafnarfirði en þeir KÁ-menn eru b-lið Hauka. Stólarnir náðu yfirhöndinni um miðjan fyrri hálfleik og unnu að lokum öruggan 0-5 sigur og komu sér betur fyrir í toppbaráttu riðilsins sem er bísna sterkur.
Það var Spánverjinn Basilio Jordan Meca sem gerði fyrsta markið á 20. mínútu og sex mínútum síðar hélt hinn taktfasti Jóhann Daði áfram að skora fyrir Stólana. Basi bætti við öðru marki sínu á 30. mínútu og staðan 0-3 í hálfleik.
Basi fullkomnaði þrennuna á 59. mínútu og það var síðan fyrirliðinn, Konráð Freyr, sem kórónaði sigurinn með marki úr vítaspyrnu á 82. mínútu en skömmu áður hafði lið KÁ misst Egil Örn Atlason af velli með rautt spjald.
Það er lið RB af Reykjanesinu sem leiðir B-riðil, er með níu stig eftir þrjá leiki, en Stólarnir eru sem stendur í öðru sæti með átta stig að loknum fjórum leikjum. Eins og staðan er nú virðast fimm lið í riðlinum hafa á að skipa sterkum hópi leikmanna og munu væntanlega berjast um toppsætin. Auk RB og Tindastóls má nefna lið KFK, Úlfana og jafnvel KÁ. Næstkomandi laugardag fá Stólarnir einmitt lið RB í heimsókn á Krókinn. Liðið hefur hingað til gert tvö jafntefli hér heima og það er því kominn tími á sigur á heimavelli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.