Finnbogi Bjarnason er reiðkennari ársins 2024
Menntanefnd LH auglýsti eftir tilnefningum fyrir netkosningu á reiðkennara ársins 2024 um miðjan nóvember en kosningunni lauk á miðnætti sunnudaginn 24. nóvember. Þrír einstaklingar fengu tilnefningu og voru það Bergrún Ingólfsdóttir, Finnbogi Bjarnason og Sindri Sigurðarsson. Sigurvegarinn var svo tilkynntur á menntadegi A – landsliðsins, laugardaginn 30. nóvember, og var það Finnbogi Bjarnason sem var valinn reiðkennari ársins 2024.
Finnbogi er fæddur og uppalinn í hestamennsku í Skagafirði þar sem hann er búsettur en hann útskrifaðist með BSc í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum árið 2020.
Finnbogi starfar sem reiðkennari og þjálfari bæði á Íslandi og í Sviss. Hann kennir Reiðmanninn 1 & 3 á Sauðárkróki þar sem fjöldi nemenda eru skráðir en reiðmaðurinn er nám í reiðmennsku og hestafræðum á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann er einnig reiðkennari í æskulýðsstarfi Skagfirðings og hefur verið síðustu ár þar sem hann kennir keppnisþjálfun og almenna reiðkennslu fyrir krakkana í félaginu en Finnbogi hefur sjálfur töluvert mikla reynslu á keppnisbrautinni. Hann hefur fylgt krökkunum vel eftir í kennslunni, meðal annars á Landsmóti hestamanna í sumar. Einnig hefur hann starfað við reiðkennslu á hestabraut FNV á Sauðárkróki sem er þriggja ára námsbraut í hestamennsku.
Í Sviss hefur hann verið virkur í reiðkennslu bæði með ungmennum og fullorðnum, meðal annars aðstoðarmaður/þjálfari nokkurra keppenda í Svissneska landsliðinu á síðasta HM. Finnbogi hefur mikinn metnað, ávallt jákvæður fyrir verkefninu og nemendur láta afar vel af honum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.