Fínn sigur á Fylki í Lengjudeildinni
Stólastúlkur brunuðu í borgina í gær og parkeruðu við Wurth-völlinn í Árbænum þar sem lið Fylkis beið eftir þeim. Bæði lið spiluðu í Pepsi Max-deildinni síðasta sumar og máttu þola fall niður í Lengjudeildina skemmtilegu. Fyrir tímabilið var liði Tindastóls spáð þriðja sæti en Fylki því fimmta og það mátti því búast við hörkuslag. Sú varð og raunin þó aðeins eitt mark hafi litið dagsins ljós en það gerði lið Tindastóls og þrjú stig í baukinn.
Þetta reyndist klassísk frammistaða hjá Stólastúlkum; vörnin sterk og Amber á tánum í markinu og í næsta nágrenni og liðið skapaði sér nokkur góð færi í leiknum, sérstaklega eftir föst leikatriði. Leikurinn byrjaði fjörlega því Helga Guðrún komst ein gegn Amber og fór niður í teignum en dómarinn mat það sem svo að Amber hefði verið á undan í boltann þrátt fyrir baul úr stúkunni. Mínútu síðar var Murr í ágætu færi eftir undirbúning Aldísar en skallaði beint í fangið á markmanni Fylkis. Bæði lið fengu nokkur hálffæri en hornspyrnur Stólastúlkna sköpuðu oftar en ekki usla inni á vítateig Fylkis. Þegar á leið hálfleikinn færðust gestirnir nær því að skora. Hugrún skaut yfir úr ágætu færi eftir fyrirgjöf Aldísar en ísinn var loks brotinn á 45. mínútu. Þau tók Hannah Cade hornspyrnu, Murr átti tilraun en boltinn barst á varnarjaxlinn Örnu Kristins, sem nýverið kom að láni frá Þór(KA, og hún sendi boltann í vinstra hornið og gerði um leið fyrsta mark sitt í meistaraflokki.
Í síðari hálfleik héldu heimastúlkur boltanum ágætlega en þeim gekk illa að skapa sér færi og smám saman fóru að myndast tækifæri fyrir Stólastúlkur að refsa Fylkisliðinu. Murr fékk nokkur álitleg færi en hún virtist hafa skikið happaskóna eftir heima og fór illa með færin sín að þessu sinni. Aldís María hafði átt fína spretti í leiknum en hún fékk gult spjald á 71. mínútu og endurtók leikinn um tíu mínútum síðar og Stólastúlkur því einum færri síðustu 10-15 mínúturnar. Það kom þó ekki að sök því Árbæingarnir náðu ekki að skapa sér góð færi þó þær hafi viljað fá dæmt á Amber eftir úthlaup og brot innan teigs stuttu síðar. Allt kom fyrir ekki og fínn 0-1 sigur Stólastúlkna staðreynd.
Lið Tindastóls hefur því unnið fyrstu tvo leiki sína í Lengjudeildinni og haldið hreinu í þeim báðum. Feykir spurði Bryndísi Rut, fyrirliða liðsins, út í leikin gegn Fylki. „Leikurinn var góður, við stjórnuðum leiknum vel, sérstaklega í fyrri hálfleik, áttum flott spil og héldum boltanum vel. Vorum óheppnar að skora ekki fleiri mörk, fengum góð færi en eitt mark dugði í gær og að halda hreinu var mjög gott. Að mínu mati vorum við betra liðið á vellinum og því sigurinn sanngjarn.“
Hvernig leggst sumarið í þig?„Sumarið verður spennandi! Það er góður andi í hópnum og allir spenntir fyrir því að spila. Deildin verður jafnari held ég en talið var að hún yrði en það eru mörg sterk lið í deildinni,“ sagði Bryndís Rut.
Næsti leikur verður hér heima í Mjólkurbikarnum þegar lið ÍR kemur í heimsókn og hefst leikurinn kl. 14:00. Föstudaginn 20. maí mætir síðan Guðni Þór Einarsson með sínar HK-stúlkur í heimsókn á ný en liðin mættust í Mjólkurbikarnum fyrir hálfum mánuði. Kópavogsstúlkur hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í Lengjudeildinni líkt og lið TIndastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.