Fimir fætur á Landsmót UMFÍ

Fimir fætur á Landsmóti

Það voru nokkrir íþróttakennarar sem komnir voru á eftirlaun sem tóku sig saman og stofnuðu félagið FAÍA, eða félag áhugafólks um íþróttir aldraðra, þann 26 ágúst 1985.
Það var svo árið 1994 sem undirrituð kynntist þessum hóp og var það alveg dásamlegt.

Jónína Hallgrímsdóttir á Hvammstanga og Eyjólfur Eyjólfsson heitinn fengu mig til að taka að mér að vera leiðbeinandi með leikfimi fyrir eldri borgara í Húnaþingi vestra, og hef ég starfað sem slíkur frá árinu 1994.

Svo var það árið 2004 að Guðrún Nilsen, formaður FAÍA  hafði samband við mig og bað mig að athuga hvort ekki væru einhverjir eldri borgarar sem vildu sýna með þeim dans á Landsmóti UMFÍ, sem var haldið á Sauðárkróki það ár.

Það fór svo að 6 eldri borgarar vildu vera með í þessu og var þá strax tekið til við að æfa dansana.Við vildum vissulega hafa nafn á hópnum og þar sem þetta eru fimir eldri borgarar og dans reynir meira á fæturnar þá fannst okkur við hæfi að kalla okkur fima fætur.
Svo var landsmót í Kópavogi árið 2007 og fóru 7 eldri borgarar þangað, og gekk ljómandi vel líkt og árið 2004 á Sauðárkróki.

Nú er framundan landsmót á Akureyri 9-12 júli og þá fara héðan 8 manns, og sýna þeir dansa á laugardeginum frá kl: 9 - 12.

Allt kostar þetta peninga og ekki vaxa þeir á trjánum svo því var leitað meðal annars til Mennigarráðs norðurlandi vestra um styrk og voru þeir svo rausnalegir að veita styrk upp á 100.000 kr og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir framlagið.

Síðan um áramót höfum við æft u.þ.b 1 sinni í viku. Og þar sem að á síðustu landsmótum hefur dansinn verið sýndur úti þá höfum við tekið eina æfingu úti. Það gerðum við í Miðhópi í Víðidal og dönsuðum við þar í garðinum. Húsmóðirin á bænum hún Ella er með okkur í dansinum og tók hún vel á móti okkur. Svo er bara músíkin sett á hæsta styrk og dansað af fullum krafti.

Ég vil fyrir hönd hópsins þakka alla þá aðstoð sem við höfum fengið.

Landsmótskveðjur
Stella Bára Guðbjörnsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir