Fiðringur í kallinum fyrir Skagfirðingakvöldið
Það verður örugglega ekkert leiðinlegt á Spot í Kópavogi annað kvöld þegar Skagfirðingum verður stefnt saman til að tjútta og tralla með öllum helstu tónlistartryllitækjum sem rakið geta ættir sínar í Skagafjörðinn. Þar má nefna til sögunnar Eika Hilmis og Ellert Jóhanns, Sverri Bergmann og Binna E, Fúsalega Helgi, stuðmennin í Von, gleðisveitina Spútnik og sveifluband Geirmundar Valtýssonar. Síðastan en alls ekki sístan skal telja Róbert bakara Óttarsson sem syngur nokkrar nýbakaðar ferskar gamlar lummur við undirspil Spútniks.
Feykir heyrði hljóðið í bakaranum nú skömmu fyrir hádegi og þóttist hann þá kenna til nokkurs stressss og örlítils skjálfta. Hann var þá nýkominn frá því að kjósa utankjörstaðar og tjáði blaðamanni að hátt á þriðja hundrað manns hefði verið búið að kjósa og fannst honum ekki ólíklegt að þetta væri merki um að Skagfirðingar væru margir á leið suður á Skagfirðingakvöld. Kannski.
Róbert undrast frekar þessa framhleypni í sér og skilur ekkert í hvað svona fullorðinn maður sé eiginlega að rembast. Hann hefur sungið opinberlega að meðaltali á 10 ára fresti síðustu 20 árin, fyrst sigraði hann í kareóki-keppni á Barnum, söng þá lagið Honesty sem Billy Joel hamraði saman á píanóið og skellti á breiðskífu sína 52nd Street fyrir rúmum 30 árum.
Ekki hyggst Róbert endurtaka flutninginn á þessari ballöðu, enda stefnt að stuði á Skagfirðingakvöldi og ballöður því nánast á bannlista. Hann ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og mun renna í gegnum örfá lög með meðal annars Queen og George Michael.
-Það er fiðringur í kallinum, sagði Róbert hress að vanda og ekki við öðru að búast en Skagfirðingar taki honum fagnandi annað kvöld.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.