FG hafði betur í Gettu betur
Lið FNV tók þátt í 16 liða úrslitum í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, í beinni útsendingu á Rás2 í gærkvöldi. Eftir spennandi keppni reyndust fjölbrautungar úr Garðabæ sterkari á svellinu og tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum í sjónvarpssal með 22-18 sigri.
Í síðustu viku hafði lið FNV betur gegn liði Menntaskólans í Kópavogi og tryggði sér þá þátt í 16 liða úrslitum keppninnar. En lengra komst liðið ekki að þessu sinni þrátt fyrir prýðilega frammistöðu.
„Lið FNV getur gengið stolt frá borði enda verið skólanum og öðru æskufólki til fyrirmyndar. Þeir nemendur sem taka þátt í Gettu betur leggja mikið á sig þar sem æfingar sem hefjast í upphafi skólaárs fara yfirleitt fram eftir skólatíma, jafnvel á kvöldin og um helgar. Auk keppnisliðsins sem þau Óskar Aron Stefánsson, Íris Helga Aradóttir og Alexander Viktor Jóhannesson skipuðu voru í æfingahóp þau Ásta Aliya Friðriksdóttir, Dagný Sara Viðarsdóttir og Bernado Tino Haensel Andrésson,“ segir í frétt á vef FNV.
Hægt er að hlusta á upptöku af keppninni á vef RÚV >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.