Feykir mælir með grilluðum kjúkling með sataysósu og Camembert í ofni
Loksins er að koma smá vorfílingur í mann og þá byrjar allsherjar grillvertíð á mínu heimili. Kjúklingur er eitthvað sem er auðvelt að fá krakkana til að borða og það er eins og þau ætli úr límingunum þegar maður bíður þeim upp á kjúklingaspjót. Ég mæli með að gera tvöfalda uppskrift því þau eru líka góð daginn eftir og ekki skemmir fyrir að notast við þessa sataysósu því hún er guðdómlega góð. Ég hef svo náð að klúðra Camembert osti í ofni, já þið lásuð rétt, en ástæðan var að ég setti hann á eitthvað glerfat sem ég hélt að ætti að þola smá hita en viti menn það gerði það ekki. Fyrir vikið sat ég uppi með að taka ofninn minn í gegn og á þar að leiðandi ennþá eftir að prufa þessa uppskrift sem verður vonandi um helgina.
RÉTTUR 1
Grillaður kjúklingur
- 600-800 g kjúklingalundir
- 4 msk. ólifuolía
- 1 sítróna – rífið börkinn af og notið hann
- 1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
- salt og pipar eftir smekk
Aðferð: Blandið öllu saman í skál og veltið lundunum upp úr blöndunni. Setjið lok yfir og geymið í kæli í 2 tíma. Gott er að setja grillpinna í bleyti áður en kjúllinn er þræddur upp á, þá brenna þeir síður. Þræðið lundirnar á spjót og grillið á vel heitu grilli í 2-3 mínútur á hvorri hlið eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.
Sataysósa
- 400 ml kókosmjólk
- 1 rautt chili, saxað smátt
- ½ krukka gróft hnetusmjör
- 5 msk. sojasósa
- 1 ½ msk. rifin engiferrót
- 2 pressaðir hvítlaugsgeirar
- 1-2 msk. hunang
- safi úr 1 lime
- kóríander, eftir smekk til skrauts
- salthnetur, saxaðar (til skrauts)
- lime bátar til að kreista yfir
Aðferð: Setjið allt í pott og hrærið vel í meðan, látið malla í nokkrar mínútur við vægan hita svo hún brenni ekki við.Gott er að smakka á sósunni og bæta við salt og pipar, chili eða chili kryddi ef þess þarf. Ef þið viljið hafa sósuna þynnri er gott að setja meira af kókosmjólk. Berið sósuna heita fram, ásamt kjúklingaspjótum, söxuðu kóríander, lime bátum og söxuðum salthnetum. Gott er að bera þennan rétt fram með salati og hrísgrjónum.
KVÖLDSNARLIÐ
BAKAÐUR OSTUR MEÐ KAHLUA OG PEKANHNETUSÝRÓPI
- 1 stk. Camembert eða Brie
- 1 ½ dl Kahlua líkjör
- 1 ½ dl púðurskykur
- 1 ½ dl pekanhnetur, gróft saxaðar
- hnífsoddur af Maldonsalti
Aðferð: Skerið efsta hlutann (toppinn) af ostinum og skiljið hann eftir á meðan osturinn er í ofninum. Bakið ostinn á smjörpappír í um 15 min. við 175°C. Setjið Kahlua og sykur í pott og látið suðuna koma upp. Hitið svo sýrópið áfram við vægan hita í um 10 mín. Hrærið reglulega í sýrópblöndunni. Bætið pecanhnetum saman við sýrópið og leyfið þeim að liggja í blöndunni í um tvær mín. Setjið ostinn í skál og takið toppinn af, hellið blöndunni yfir. Berið fram með þessu pítabrauð, snittubraut eða kex.
Uppskriftirnar og myndirnar eru teknar af síðunni eatrvk.is
Verði ykkur að góðu og góða helgi
sigga sigga sigga
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.