Feykir kemur ekki út í dag

Árni Þóroddur Guðmundsson

Vegna sumarleyfa kemur Feykir ekki út í dag en í næstu viku mun 27. tölublað koma út með fjölbreyttu og forvitnilegu efni.

Í síðasta Feyki skrifaði Árni Þóroddur Guðmundsson skemmtilegan áskorandapistil frá Danmörku og látum við hann fljóta með hér.

 

 

 

 

Áskorendapenninn

Árni Þóroddur skrifar frá Danaveldi

 

Þakka þér félagi Árni Geir fyrir að senda mér pennann. Eftir að hafa lesið þrjá fyrri pistla mér til ánægju sé ég að þetta er erfitt til eftirfylgdar.

 

En allaveganna að minningunum...

 

Margar koma upp og erfitt að velja hvort betra sé að taka hratt yfirlit yfir nokkrar góðar eða fara dýpra í eina sérstaka. Ég sé bara hvað kemur út úr því þegar ég byrja að láta huga og fingur reika.

 

Sauðárkrókur er góður staður fyrir unga að alast upp á. Að geta skellt sér yfir götuna meðan maður er ungur og farið á leikskóla, sem unglingur skellt sér hinum meginn yfir götuna og farið í gagnfræðaskóla. Á árunum þess á milli enn á leikskólanum eftir lokun og þegar klukkan er orðin hálf ellefu þá kallar mamma úr eldhúsglugganum á efstu hæðinni í Víðigrundinni að maður eigi að koma inn að sofa (kall sem maður hlýðir). Á leikskólanum gerðust margir góðir leikir; yfir, punktur og króna, kyssó (eða eitthvað svoleiðis sem ég neitaði að taka þátt í vegna afstöðu minnar til samskipta við hitt kynið á þessum árum), og svo byssó (þar sem Davíð Harðar harðneitaði að vera skotinn þar sem hann náði að beygja sig undan þykjustu kúlunum frá bróður mínum, og Gunni bróðir leit á mig vonsvikin yfir afrekinu, eða svindlinu, hvernig sem fólk kýs að túlka það).

            Norðan við gagnfræðaskólann eru svo nafirnar þar sem maður gat dröslast með snjóþotu þegar það var gott í nöfunum, og svo þar fyrir ofan að sjálfsögðu fótboltavöllur þar sem við spiluðum einmitt með áðurnefndum kvöðum ef boltinn fór niður (sjá síðasta pistil og hugsið sitt hvora árstíðina). Eftir að ég náði unglingsárum þurfti ég ekki einu sinni lengra enn Gaggann, þar sem ég var of stór fyrir snjóþotuna, spilaði bara körfu og mætti svo í félagsmiðstöðina til að spila pool eða borðtennis og halda því fram að ég hlustaði ekki á tónlist og gengi ekki í gallabuxum. Ég átti tvo íþróttasamfestinga með sitt hvora peysuna við og eitt sett notað í viku meðan hitt settið var þvegið, mamma sárbað um að fá að kaupa á mig gallabuxur en ég lét mig ekki fyrr en á síðasta ári í Gagganum (kenni um seint tilkomnu hvolpaviti að ég lét mig á endanum).

            Þegar leikirnir voru farnir að leiðast eða fáir til að leika við þá vorum við bræður svo heppnir að vera líkir í aldri að við gátum alltaf leikið við hvorn annan, svona þar til við urðum ósáttir og slitum leik með rifrildi. Einn slíkur er mér mjög kær, liðaleikur, sem gengur hreinlega út á einn mann í marki, hinn úti á velli með fótbolta. Sá sem er úti á velli leikur sitt lið og sendir á sjálfan sig í nafni hetja eins og Roberto Baggio eða Gianluca Vialli og endar með skoti sem að hinn þarf að verjast. Síðan er skipt um stöðu og sá sem var í marki leikur hið sama eftir og sá vinnur sem skorar oftar. Títt nefndur Auðunn Blöndal er sá eini sem hefur fengið rautt spjald og verið sendur heim í þessum leik. Þetta var einmitt á túninu við hliðina á leikskólanum.

 

Það er ekki hægt að minnast Sauðárkróks án þess að minnast Ártúns 9 hjá Einari Gísla og Soffíu, en þar eyddum við félagarnir öllum tímum utan skylduverka, níddumst á kærustu Indriða þar sem hann var fyrstur til að fá sér svoleiðis og hún var ekki velkomin, og héldum vöku fyrir húsráðendum þar til Einar fékk nóg og skipaði okkur út með sinni djúpu röddu. Sá fyrsti til að yfirgefa hópinn og Ártúnið var Reynir Hjálmarson og ætla ég að senda honum pennann í því tilefni.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir