Ferðin en ekki áfangastaðurinn...
Ég vil þakka vini mínum Svavari fyrir að skora á mig og gefa mér tækifæri á því að senda pistil í þetta góða blað. Vil ég samt aðvara lesendur því ég mun skrifa um sjálfan mig í þessum pistli. Vel má vera að hann verði þungur á pörtum en fyrir þá sem halda út að lesa hann til enda mun hann enda vel. Þeir sem þekkja mig vita að ég er mikill keppnismaður og á mjög erfitt með að taka tapi hvort sem það er mitt eigið tap í leik eða tap liðs sem ég fylgi í kappleik. Fyrir mér hefur það verið fyrsta sætið sem skiptir máli og allt annað verið tap, því skildi ég aldrei orðtiltækið „það er ferðin sem skiptir máli en ekki áfangastaðurinn“.
Hvernig getur ferðin skipt máli þegar það er nú áfangastaðurinn sem maður er að reyna að komast á og ferðin eingöngu hindrun. Þessu hef ég trúað öll mín uppvaxtar og fullorðinsár. Hvort sem það snéri að margra ára háskólanámi sem lauk með gráðu eða um undirbúning fyrir jól, þar sem öllu skipti að hafa allt tilbúið klukkan 18:00 á aðfangadagskvöld því þá bæri ég inn steikina.
Í sumar urðu þáttaskil hjá mér og ákvað ég í framhaldinu að endurskoða allt sem ég hef gert og í raun lifað fyrir. Það sem ég komst að var að ég hef aldrei almennilega kunnað að meta það þegar ég hef náð þeim markmiðum sem ég stefndi að né verið tilbúinn fyrir þær áskoranir sem komu á eftir þeim. Komst ég líka að því að ferðin skiptir öllu máli, helvítis steikin skiptir engu máli ef við fjölskyldan höfum ekki notið aðventunnar, farið á skauta í miðbænum, drukkið kakó í Árbæjarsafninu og skreytt piparkökur saman. Ef við höfum ekki notið þess að gera neitt af þessu saman þá er alveg hægt að panta pizzu og leigja mynd.
Maður tekur eftir því núna í aðdraganda jólanna að það eru margir í þjóðfélaginu sem sjá ekki gildi ferðarinnar heldur líða áfram í stressi og geta ekki beðið eftir að klukkan slái 18:00 á aðfangadag. Mitt innlegg fyrir ykkur ágætu lesendur eða eins og kaninn segir „my two cents“ er því njótið ferðarinnar og helst með þeim sem eru ykkur næst því þið vitið ekki hvað gerist á morgun.
Er ekki ferðin dásamleg?
Stefán Gestsson „yngri“ er fæddur og uppalin á Arnarstöðum. Er fyrst og fremst fjölskyldufaðir og núna nýlega ferðamaður.
Ég vil skora á Viðar Örn Steinþórsson frá Hofsósi að skrifa næsta pistil.
Stefán Gestsson brottfluttur Skagfirðingur
Áður birst í 46. tbl. Feykis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.