Ferðast með logandi friðarljós á pallinum

Örvar Ragnarsson og Sigurdríf Jónatansdóttir með Betlehemsljósið á milli sín

Sigurdríf Jónatansdóttir fær rétt fyrir upphaf aðventu ár hvert góða heimsókn en þá kemur skáti við hjá henni á ferð sinni um landið með sprota af friðarljósi því er skátahreyfingin flutti til landsins frá Betlehem árið 2001.

betlehemsljos_skatar (5)Ljósið kom til landsins þann 19. desember árið 2001 og hefur æ síðan verið fóstrað í St. Jósefskirkjunni og Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Með tendrun friðarljóssins ár hvert vilja skátar hringinn í kringum landið gefa öllum hlutdeild í þeim einkunnarorðum Baden Powell að gera heiminn örlítið betri þegar við skiljum við hann en þegar við komum í hann.

Undan farin ár hefur Örvar Ragnarsson, staðarhaldari á Úlfljótsvatni, séð um að keyra logann um landið en Örvar fer frá Reykjavík og kemur við á Höfn, Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki, Blönduósi, Búðardal, Grundarfirði og endar síðan á Akranesi. Í ferðalagið tók hann að þessu sinni tvo sólahringa en stundum hefur hann einungis gist eina nótt  á leiðinni.

Logann fóstrar Sigrurdríf síðan í olíulampa úti fyrir hjá sér en skátar munu næst komandi sunnudag tendra ljósið á Betlehemkertinu á aðventukvöldi í Sauðárkrókskirkju. Þá munu skátar verða í kirkjugarðinum á Sauðárkróki á aðfangadag þar sem gestir garðsins geta fengið afleggjara af loganum til þess að láta loga á leiði ástvina sinna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir