Ferðamenn út um allar koppagrundir

Frá Ketubjörgum. Það lítur ekki út fyrir að parið til hægr þjáist af lofthræðslu. MYND: ÓAB
Frá Ketubjörgum. Það lítur ekki út fyrir að parið til hægr þjáist af lofthræðslu. MYND: ÓAB

Sumarið minnti á sig um liðna helgi en íbúum og gestum á Norðurlandi vestra var boðið upp á hlýindi og hæga sunnangolu. Umferð ferðalanga er nú komin á fullt á svæðinu en þegar blaðamaður átti leið um Skagann sl. sunnudag voru sjó bílar í Kálfshamarsvík og mest megnis erlendir túristar á vappi með myndavélar á lofti. Við Ketubjörg hafa verið gerð bílastæði og þau nýtti fólk sér í sumarblíðunni.

Stæði eru sitt hvoru megin við Ketubjörg og aðgengi hefur tekið stakkaskiptum. Samkvæmt upplýsingum Feykis voru bílastæðin gerð síðastliðið haust en enn á þó eftir að hnýta nokkra lausa enda, eins og að klára merkingar og setja upp skilti, áður en þau verða formlega tekin í gagnið.

Á sunnudaginn var ríflega 20 stiga hiti við Ketubjörg og ferðamenn sem þar stöldruðu við drógu fram sólstóla og og tylltu sér bókstaflega á fremstu brún – nutu blíðunnar og einstaks útsýnis yfir bláan fjörðinn.

Á Wikipediu segir að Ketubjörg séu rúmlega 120 metra há, þar er stuðlaberg og úti fyrir eru stakir drangar, sá stærsti og mesti heitir Kerling. Í björgunum, sem eru friðuð, er auðugt fuglalíf. Stundum þótti illfært um veginn við Ketubjörg fyrir tröllagangi en mikil tröllabyggð var sögð vera í Ketubjörgum og var sagt að tröllin héldu þing í skarði sem liggur gegnum björgin og kallast Tröllalögrétta. Prestar sem þjónuðu Ketukirkju voru þá vanir að hringja bjöllu þegar þeir komu að hól sem Presthóll kallast og héldu því áfram þegar þeir riðu með björgunum. Þegar sér Hálfdán á Fello þjónaði sókninni um tíma tókst honum að losna við tröllaganginn með fjölkynngi.

Það er fátt sem slær út rólegheita ferð fyrir Skagann í góðu veðri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir