Ferðakostnaði verði stillt í hóf
Á fundi Byggðaráðs Skagafjarðar í gær lagði Guðmundur Guðlaugsson sveitarstjóri fram tillögu sem kvetur forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins til að stilla ferðakostnaði í hóf. Páll Dagbjartsson telur tillöguna óþarfa.
Á fundinum lagði Guðmundur sveitarstjóri fram svohljóðandi tillögu:
"Byggðarráð samþykkir þá reglu varðandi greiðslur á móti ferðakostnaði á núlíðandi ári að endurgreiddur verði útlagður kostnaður samkvæmt framlögðum reikningum hverju sinni. Ekki verði greiddir dagpeningar nema um það sé samið sérstaklega í undantekningatilfellum eða ef fjárhæð reikninga nemur hærri fjárhæð en dagpeningar sem reiknast hefðu fyrir viðkomandi ferð samkvæmt gildandi viðmiðum ferðakostnaðarnefndar ríkisins á hverjum tíma. Heimild forstöðumanna stofnana, sviðsstjóra eða sveitarstjóra þarf að liggja fyrir áður en stofnað er til ferðalaga og framlagðir reikningar fyrir útlögðum kostnaði skulu hafa hlotið staðfestingu yfirmanna áður en greiðsla er innt af hendi. Þeim tilmælum er beint til stjórnenda að kostnaði við ferðalög verði stillt í hóf og undantekningalaust virt viðmið fjárhagsáætlunar hverju sinni."
Meirihluti byggðarráðsins samþykkti tillöguna en Páll Dagbjartsson lét bóka eftirfarandi:
"Ég treysti forstöðumönnum stofnana sveitarfélagins hér eftir sem hingað til, að valin sé sú leið við greiðslu ferðakostnaðar sem hagkvæmust er fyrir viðkomandi stofnun hverju sinni. Tel ég þessa tillögu því óþarfa og sit hjá"
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.