Fenderinn hefur farið í gegnum ca. 1600 dansleiki

Hörður með Framusinn. Mynd: Aðsend
Hörður með Framusinn. Mynd: Aðsend

Það er Hörður Gunnar Ólafsson sem svarar „Hljóðfærinu mínu“ að þessu sinni. Frá Sauðárkróki kemur hann og hefur verið tónlistarmaður frá fyrstu framkomu í barnaskólanum árið 1965 og síðan verið viðloðandi tónlistarflutning og tónsmíðar alla tíð. Hörður lærði tannsmíðar í Tannsmíðaskóla Íslands árin 1972-1975, rak tannsmíðastofu á Sauðárkróki frá 1976-2005 og vann síðan í Reykjavík við tannsmíðar til 2020 eða 48 ár með vinnunni á námstímanum.

Í dag vinnur hann við tónlist eingöngu, lagasmíðar og upptökur á þeim, spilamennsku með hljómborð og söng eða kassagítar og söng út um allt land. Hörður hefur starfað í ýmsum hljómsveitum, á meðal þeirra má nefna Styrmingu, Norðan 3, Herramenn, Stöff, Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar og Neista. Hann samdi m.a. framlag Íslands í Eurovision árið 1990, Eitt lag enn sem Stjórnin flutti og gerir enn.

Hvaða hljóðfæri heldur þú mest upp á af þeim sem þú átt?
Ég held mest upp á fyrsta gítarinn sem ég eignaðist, fékk hann í jólagjöf 12 ára. Það var Framus Rafmagnsgítar sem ég á enn og er mér mjög kær og svo líka Fender Jazz Bass 1973 árgerð sem ég á líka í mínu safni, mikið spilaður en í fínu standi.

Hvers vegna heldur þú mest upp á þetta hljóðfæri? Framusinn var fyrsti gítarinn minn, áður var ég með lánsgítara þegar ég var að læra á gítar. Fenderinn er aftur á móti mitt aðalhljóðfæri í gegn um ca. 1600 dansleiki og ýmsar aðrar skemmtanir, tryggur félagi í gegnum tíðina og er enn að, stundum.

Ert þú fyrsti eigandinn að hljóðfærinu? Hvar keyptirðu það? Ef ekki hver/hverjir áttu það á undan þér?
Ég er fyrsti eigandi að þessum hljóðfærum. Framusinn kom úr Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur í Reykjavík, en Fender Jazz bassann keypti ég í Tónabúðinni á Akureyri árið 1973.

Hefur hljóðfærið hljómað á einhverjum plötum eða lögum?
Fender bassann hef ég notað á mörgum tugum upptaka frá 1980 til dagsins í dag og væri of langt mál að telja það upp hér. Margar hverjar eru á Spotify (Hörður G Ólafsson).

Hefur þetta hljóðfæri eitthvað fram yfir svipuð hljóðfæri að þínu mati?
Það held ég ekki, bara gamlar góðar óformagnaðar græjur með fínan hljóm og standa fyrir sínu.

Gætir þú hugsað þér að selja það einhvern tímann?
Ég myndi ekki vilja selja þessa vini mína, en þeir verða örugglega seldir seinna.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hljóðfærinu á einhvern hátt?
Ég fullt af sögum sem tengjast þessum hljóðfærum. Mér dettur strax í hug saga af fyrsta gítarnum mínum sem ég fékk í jólagjöf eins og ég nefndi áður, þá 12 ára. Þennan gítar notaði ég sem gítarleikari fyrstu skrefin en svo varð ég bassaleikari og þurfti að selja hann til að fjármagna bassagítar. Síðan líða áratugir og ég varð fimmtugur. Konan mín, Margrét, var að leita að afmælisgjöf og datt í hug að leita að fyrsta gítarnum mínum og fann hann í Skagafirði, keypti hann og gaf mér í afmælisgjöf. Þetta er ein besta gjöf sem ég hef fengið um dagana, fyrir utan konuna og börnin okkar. Svona er lífið yndislegt.

Hefur þú séð á eftir einhverju hljóðfæri sem þú værir til í að eiga í dag?
Já, ég átti 12 strengja Hagström kassagítar sem ég notaði mjög mikið á yngri árum, en einhver settist á hann og hann brotnaði mjög illa, útilokað að gera við hann.


Fender Jazz Bassinn og Hörður á dansleikjum fyrir einhverjum árum. Mynd: Aðsend.

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir