Feðginin Þórarinn og Þórgunnur bæði með silfur í fimmgangi F1 á Íslandsmóti

Þórgunnur Þórarinsdóttir og Djarfur frá Flatatungu enduðu í öðru sæti í Fimmgangi F1 ungmenna. Mynd: Sigríður Gunnarsdóttir.
Þórgunnur Þórarinsdóttir og Djarfur frá Flatatungu enduðu í öðru sæti í Fimmgangi F1 ungmenna. Mynd: Sigríður Gunnarsdóttir.

Íslandsmót fullorðinna- og ungmenna í hestaíþróttum fór fram sl. helgi á Selfossi. Knapar frá Norðurlandi vestra voru sem áður áberandi.

Í meistaraflokki varð Þórarinn Eymundsson í öðru sæti í fimmgangi F1 á Þráni frá Flagbjarnarholti eftir dómararöðun, en hann var með sömu einkunn og Teitur Árnason og Atlas frá Hjallanesi 1 sem urðu Íslandsmeistarar. Það vill svo skemmtilega til að Þórarinn hefur tamið, þjálfað og sýnt efstu þrjá hestana í fimmgangi, en í þriðja sæti varð skagfirski klárinn Ölur frá Reykjavöllum.

Mette Mannseth endaði í níunda sæti í fimmganginum á Kalsa frá Þúfum. Mette mætti einnig með Blund frá Þúfum í slaktaumatölt T2 og sigruðu þau B-úrslit þar og enduðu fimmtu í A-úrslitum, og í 100 metra flugskeiði varð hún í sjötta sæti á Vivaldi frá Torfunesi.

Miðfirðingurinn Helga Una Björnsdóttir var í sjöunda sæti í fjórgangi V1 á Hnokka frá Eylandi og sigraði B-úrslit í tölti á hryssunni Flugu frá Hrafnagili og þær stöllur enduðu sjöttu í A-úrslitum.

Í skeiðkappreiðunum varð Sigurður Heiðar Birgisson á Ríp í Hegranesi í fimmta sæti í 150 metra skeiði á Hrinu frá Hólum og bóndinn á Miðsitju, Daníel Gunnarsson, varð í þriðja sæti í 250 metra skeiði á Einingu frá Einhamri 2, og einnig í sjötta sæti í sömu grein á Kló frá Einhamri 2. Daníel endaði síðan í sjötta sæti í gæðingaskeiði á Strák frá Miðsitju.

Í ungmennaflokki sigraði Þórgunnur Þórarinsdóttir B-úrslit í Fimmgangi F1 á Djarfi frá Flatatungu og gerðu þau gott betur og enduðu í öðru sæti í A-úrslitum. Þórgunnur er dóttir Þórarins Eymundssonar og feðgin því bæði í öðru sæti í fimmgang þetta Íslandsmótið. Þórgunnur endaði einnig í fimmta sæti í 100 metra flugskeiði á Gullbrá frá Lóni.

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir