Farskólinn á ferðinni
Þessa vikuna verður Farskólinn á ferðinni um Norðurland vestra með kynningu fyrir fólk sem starfar í iðnaði á sí- og endurmenntun. Blönduós var heimsóttur í gær, Skagaströnd í dag, Hvammstangi á morgun, Sauðárkrókur annað kvöld og Siglufjörður á fimmtudaginn.
Á vef Farskólans eru ferðirnar gerðar upp í lok dags og er ekki annað að sjá en að þær séu bæði skemmtilegar og fræðandi en þar segir.
„Ekki er annað hægt að segja en að veðrið hafi verið gott á Norðurlandi vestra mánudaginn 5. október. Þegar upp á Þverárfjallið var komið blöstu Strandafjöllin við í allri sinni dýrð.
Fyrst var komið við á Þverbraut 1 og drukkið ilmandi kaffi hjá þeim Ásgerði og Stefaníu hjá Samstöðu. Blönduósbær og Húnahreppur hafa komið upp nýju Námsveri á Þverbrautinni og verður þar fullkominn fjarfundabúnaður ásamt tölvum fyrir væntanlega námsmenn sem stunda fjarnám.
Í hádeginu bauð Farskólinn upp á súpu og brauð í Félagsheimilinu fyrir iðnaðarmenn og þá sem hafa hug á því að ná sér í full réttindi í sinni iðngrein. Margrét, náms- og starfsráðgjafi kynnti meðal annars raunfærnimat, en það felur í sér að færni viðkomandi iðnaðarmanns er metin til mögulegrar styttingar á áframhaldandi námi til réttinda. Það kom á óvart að enginn sá sér fært að koma á kynningu Farskólans á Blönduósi, að þessu sinni.
Eftir hádegið var komið við í Grunnskólanum og heilsað upp á starfsfólkið þar. Að vanda fengum við góðar móttökur.
Heilsað var upp á Arnar, bæjarstjóra Blönduóssinga, og fékk hann örstutta kynningu á starfi Farskólans.
Deginum lauk með því að starfsmenn heilsuðu upp á námshópana í Eflum byggð bæði á Blönduósi og Skagaströnd. Ekki var annað að sjá en að hugur væri í námsmönnum við að takast á við verkefni næstu vikna.
Þriðjudaginn 6. október verður Farskólinn á Skagaströnd og verður nánar sagt frá þeirri ferð síðar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.