Færsla á þjóðvegi myndi hafa neikvæð áhrif
Falli Blönduós úr alfaraleið gæti það haft neikvæð byggða- efnahags- og samfélagsleg áhrif segir bæjarstjórn Blönduósbæjar sem ályktaði um tillögu Vegagerðarinnar um nýjan stofnveg milli Brekkukots í Húnavatnshreppi og Skriðulands í Blönduósbæ þannig að ekki yrði lengur keyrt í gegnum Blönduós þegar ferðast er um þjóðveg 1.
Í gildandi Svæðisskipulagi Austur-Húnavatnssýslu 2004-2016 er ekki gert ráð fyrir nýjum stofnvegi í sýslunni. Þá hefur bæjasjórn í drögum að aðalskipulagi 2010-2022 ekki ráðgert nýjan stofnveg innan marka sveitarfélagsins. Í ályktun Blönduósbæjar segir; -Bæjarstjórn Blönduósbæjar fer með stjórn skipulagsmála innan sveitarfélagsmarka. Tillaga Vegagerðarinnar felur það í sér að færa Blönduósbæ úr alfaraleið. Slík tillaga gengur þvert gegn stefnu bæjarstjórnar. Afstaða bæjarstjórnar er skýr og getur hún enganvegin fallist á tillögu Vegagerðarinnar. Blönduósbær er mikilvæg þjónustumiðstöð fyrir íbúa Austur-Húnavatnssýslu og löng hefð fyrir þjónustu við vegfarendur. Falli Blönduósbær úr alfaraleið mun það hafa alvarleg og neikvæð byggða-, efnahags- og samfélagsleg áhrif.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.