Fab Lab smiðja í fjölbraut

Sauðarkrókur mun senn bætast í hóp um 40 staða víðs vegar um heiminn þar sem starfræktar eru svokallaðar Fab Lab smiðjur með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er.

Undirritaður var samstarfssamningur um rekstur Fab Lab smiðju á Sauðárkróki fyrr í dag, en það eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Hátæknisetur Íslands ses. og Sveitarfélagið Skagafjörður sem taka þátt í verkefninu. Fab Lab á Sauðárkróki mun hefja starfsemi í verknámshúsi Fjölbrautaskólans síðari hluta sumars.  Smiðjunni er ætlað að gefa frumkvöðlum, nemendum, almenningi og starfsmönnum fyrirtækja og stofnana tækifæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Vonast er til að Fab Lab Sauðárkróki efli nýsköpun á svæðinu með því að auka tæknilæsi og stuðla að auknum áhuga á tæknimenntun þannig að upp úr spretti viðskiptahugmyndir og atvinnutækifæri.

Fab Lab stendur fyrir Fabrication Laboratory og átti hinn virti MIT háskóli í Bandaríkjunum frumkvæði að stofnun Fab Lab. Slíkar starfrænar smiðjur eru t.d. víða í Bandaríkjunum, Ghana, Suður-Afríku, Costa Rica, Indlandi og á Spáni auk Vestmannaeyja en þar opnaði Nýsköpunarmiðstöð Íslands Fab Lab árið 2008. Smiðjan í Vestmannaeyjum fær um 300 heimsóknir á mánuði yfir veturinn og á meðal gesta eru hönnuðir, almenningur, frumkvöðlar og nema r á öllum skólastigum. Fab Lab má líkja við hráa frumgerðarsmíði en þó er Fab Lab öflugra og notendavænna.

Í Fab Lab á Sauðárkróki verður horft til þess að auka og efla áhuga ungmenna og nemenda á tæknimenntun og virkja þannig nýsköpunarkraftinn í unga fólkinu í samstarfi við skólana á svæðinu.  Frumkvöðlar og einstaklingar geta jafnframt fengið aðstoð við hönnun og framleiðslu í smiðjunni. Ekki er um fjöldaframleiðslu að ræða, heldur framleiðslu hluta til eigin nota eða frumgerðir.  Einnig nýtist Fab Lab fyrirtækjum og stofnunum í vöruþróunarferlinu.
Fab Lab smiðjan á Sauðárkróki er fjármögnuð af Hátæknisetri Íslands með styrk frá Iðnaðaráðuneyti og Sáttmála til sóknar í skólamálum í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir