Fab Lab á Sauðárkróki - Uppspretta viðskiptahugmynda og atvinnutækifæra
Nýsköpunarmiðstöð Íslands Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Hátæknisetur Íslands ses. og Sveitarfélagið Skagafjarður mun á næstu dögum undirrita samstarfssamning um uppsetningu og starfsemi stafrænnar smiðju, Fab Lab (Fabrication Laboratory), í verknámshúsi fjölbrautaskólans á Sauðárkróki.
Smiðjunni er ætlað að gefa frumkvöðlum, nemendum, almenningi og starfsmönnum fyrirtækja og stofnana tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og láta hugmyndir sínar verða að veruleika með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Smiðjur sem þessar eru t.d. víða í Bandaríkjunum, Ghana, Suður-Afríku, Costa Rica, Indlandi og á Spáni ásamt smiðju í Vestmannaeyjum sem hóf starfsemi 2008.
Fab Lab smiðja er samansafn tækja og tóla til að búa til nánast hvað sem er. Líkja má þessu við hráa frumgerðarsmíði en þó er Fab Lab öflugra og notendavænna. Möguleikarnir eru margir og vonast er til að nýsköpun eflist á þeim svæðum þar sem smiðjurnar verði settar upp, auk þess sem þær stuðli að auknum áhuga á tæknimenntun og efli tæknilæsi í þeirri von að upp úr spretti viðskiptahugmyndir og atvinnutækifæri. Í fyrsta lagi er horft til þess að auka og efla áhuga ungmenna og nemenda menntastofnana á tæknimenntun og virkja þannig nýsköpunarkraftinn í unga fólkinu og efna til samstarfs við skólana og aðra. Í öðru lagi geta frumkvöðlar og einstaklingar fengið aðstoð við hönnun og framleiðslu. Ekki er um fjöldaframleiðslu að ræða, heldur frekar framleiðslu hluta til eigin nota eða frumgerðir. Í þriðja lagi nýtist Fab Lab fyrirtækjum og stofnunum í vöruþróunarferlinu.
Fab Lab smiðjan í Vestmannaeyjum, sem Nýsköpunarmiðstöð opnaði árið 2008, hefur gefið góða raun og hafa fjölmargir einstaklingar, frumkvöðlar og nemar á öllum skólastigum nýtt sér aðstöðuna.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.