Evróvisjónlagið verður valið í kvöld

Á meðan landsmenn gera árás á bragðlauka og lyktarskyn yfir þorramatnum í kvöld stíga nokkrir ágætir spariklæddir söngvarar og hljóðfæraleikarar á stokk í Sjónvarpssal og keppa um athygli landans. Evróvisjónframlag Íslands 2010 skal valið í símakosningu og ekki laust við að Skagfirðingar þurfi að slá á þráðinn.

Ef Skagfirðingar hyggjast velja eftir hrepperni koma þrjú lög til greina og því annað hvort að kjósa öll lögin eða velja úr það sem viðkomandi líkar best.

Króksarinn, Dýllarinn og sillfursveinninn Óskar Páll samdi lagið One More Day með hjálp Bubba Morthens en það lag syngur Jógvan Hansen - þó ekki af skagfirskum Hansenum kominn þó eftirnafnið hringi bjöllum. Í samtali við Feyki segist Óskar Páll treysta á sanngjarna þjóðaratkvæðagreiðslu og hvetur vini og vandamenn til að styðja skagfirska útrás og kjósa lagið One More Day.

Rögnvaldur Rögnvaldsson, oft kenndur við gáfur, er fæddur á Marbæli í Óslandshlíð en segir í viðtali í Feyki að hann hafi verið fluttur hreppaflutningum sem barn til Akureyrar en hafi ekki fengið miklu ráðið um þau vistaskipti. Rögnvaldur er bróðir Pálma Rögg. Hann kemur fram í félagi við Hvanndalsbræður sem fara mikinn í laginu Gleði og glens.

Þá geta Skagfirðingar gert tilkall til aðildar að laginu Je Ne Sais Quoi - borið fram Sjenneiseikva. Hera Björk syngur þetta ágæta Júrópopp af krafti en Skagfirðingar horfa vitaskuld til Kristjáns Gísla sem er í frábæru formi í bakrödd og bakraddarhreyfingum. Kristján er líkt og Óskar Páll bæði Króksari og  Dýllari en hann hefur einnig verið í hlutverki aðalsöngvara í Júróvisjón fyrir hönd Íslands - tölum ekki nánar um það.

Í Morgunblaðinu í morgun fer Árni Matthíasson músíkspekúlant yfir lögin og hann virðist hrifnastur af framlagi Óskars Páls og Bubba. Þá líst honum ágætlega á lagið The One í flutningi Írisar Hólm. Margir spá hinsvegar lagi Heru Bjarkar áfram sem klárlega er mesta Júrópoppið en aðrir eru hrifnir af gleði og glensi Hvanndalsbræðra.

Það er því útlit fyrir spennandi kvöld í kvöld og þeir sem vilja kynna sér lögin geta smellt sér héðan yfir á heimasíðu keppninnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir