ESB umsókn í boði framsóknar í NV kjördæmi?

Íbúar í NV kjördæmi fylgdust grannt með framgöngu sinna þingmanna í atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að ESB síðastliðið sumar, enda var málið eitt þeirra sem efst voru á baugi fyrir alþingiskosningarnar vorið 2009. Ekki kom á óvart að báðir þingmenn Samfylkingarinnar Guðbjartur Hannesson og Ólína Þorvarðardóttir skyldu greiða aðildarumsókn atkvæði sitt og var það í samræmi við málflutning þeirra fyrir kosningar.

 Allir þrír þingmenn VG, Jón Bjarnason, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ásmundur Einar Daðason stóðu einnig við orð sín um einarða andstöðu við að hafnar yrðu aðildarviðræður.  Þar létu þeir ekki undan þrýstingi og hótunum og voru trúir þeim málflutningi sem þeir höfðu uppi fyrir kosningar og átti sinn þátt í glæsilegum sigri VG í kjördæminu. Ekki reyndi mikið á afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins,  Ásbjörns Óttarssonar og Einars K. Guðfinnssonar sem greiddu atkvæði gegn aðildarumsókn, enda í stjórnarandstöðu í þetta skiptið. Óvíst er hvernig hefði farið væru þeir í stjórn eins og vegferð flokksins með Samfylkingunni síðastliðinn vetur virtist stefna áður en uppúr slitnaði. Það sem vakti hinsvegar furðu íbúa í kjördæminu var afstaða þingmanna Framsóknarflokksins. Þar fóru ekki saman orð og gjörðir.

Öflugustu baráttumenn á alþingi gegn ESB aðild úr röðum VG

Það voru því óneitanlega skondin skrif þingmanns framsóknarflokksins í NV kjördæmi og þingflokksformanns Gunnars Braga Sveinssonar í Morgunblaðinu  19. feb. síðastliðinn.  Þar fer hann um víðan völl og atast út í þingmenn VG vegna þeirrar niðurstöðu þingsins að samþykkja aðildarviðræður við Evrópusambandið.  Sumir eiga það sjálfsagt skilið líkt og þingmenn fleiri flokka sem gengið hafa á bak orða sinna. Ekki er ólíklegt að mörgum hafi hinsvegar verið skemmt og telji afbrýðisemi ráða för, að sjá þingmanninn í skrifum sínum með ævintýralegum hætti reyna að tengja sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og aðra þingmenn VG í kjördæminu við samþykkt aðildarumsóknar að ESB. Ekki síst í ljósi þess að segja má að atkvæði þingmanna framsóknar og Samfylkingar í NV kjördæmi hafi ráðið úrslitum um þá hryggilegu niðurstöðu alþingis að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Öflugustu baráttumenn á alþingi gegn  Evrópusambandsaðild er hinsvegar eins og alþjóð veit, að finna í röðum þingmanna VG í kjördæminu.

 

Kjósendur framsóknar í NV kjördæmi sviknir

Hvað skyldi því fólki nú finnast sem hlustaði á frambjóðendur Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar fara um kjördæmið og tala gegn aðild að ESB. Því fólki sem lagði mikið á sig til að tryggja framsókn tvo þingmenn í kjördæminu og jafnvel fylgdi frambjóðendum um sveitir til að veita þeim brautargengi.  Einu kjósendur í NV kjördæmi sem hafa verið sviknir af þingmönnum sínum hvað varðar orð og gjörðir þegar aðild að Evrópusambandinu er annarsvegar, eru kjósendur Framsóknarflokksins.

Andstæðingar ESB aðildar snúi saman bökum

Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að þeir sem vilja standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar og hafna ESB aðild þétti raðirnar. Í stað þess að slá feilhögg í fjölmiðlum til samherja í baráttunni gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu væri þingflokksformanni Framsóknarflokksins nær að stilla sér upp með öðrum þeim sem nú vaða elginn til að verja fjöregg þjóðarinnar.

Bjarni Jónsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir