Eru ekki allir klárir í Gamlárshlaupið?
Í tilefni af sjötugsafmæli Árna Stefánssonar verður Gamlárshlaup skokkhópsins haldið á nýjan leik á Sauðárkróki þann 31. desember. Hlaupið hefst kl. 13 en skráning hefst klukkutíma fyrr við íþróttahúsið á Króknum en þaðan verður einmitt hlaupið. Ekkert þátttökugjald verður en þeir sem munu spretta úr spori eiga engu að síður möguleika á sleppa að veglegum útdráttarverðlaunum að hlaupi loknu.
Árni mun í lok hlaupsins afhenda skipulagskeflið í hendurnar á nýjum umsjónarmanni þannig að Gamlárshlaupshefðin haldi áfram. Veðurstofan gerir ráð fyrir um átta stiga frosti og nettri sunnanátt og hvetur Árni Stef þátttakendur til að mæta hressa til hlaups og klæða af sér kuldann.
„Vonandi sjáumst við sem flest og eigum góða stund saman á síðasta degi ársins,“ segir í auglýsingu vegna hlaupsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.