Er kerfillinn að taka yfirhöndina?

Kerfill í blóma

Skógarkerfill er að skjóta rótum víða á Sauðárkróki og má þá sérstaklega nefna brekkuna fyrir neðan sjúkrahúsið og eins í brekkunni fyrir ofan íþróttavöllinn. Kerfillinn er hið mesta illgresi og mun ef ekki verður neitt aðhafst breiða hratt úr sér á kostnað annars gróðurs. Feykir.is fór á netið og fann staðreyndir um Kerfilnn.

Skógarkerfill er reskitegund (þrífst vel í röskuðu landi) sem er hraðvaxta og dugleg í samkeppni við annan gróður. Hann vex best í fremur rökum og frjósömum jarðvegi þar sem gott framboð er af köfnunarefni. Kerfillinn er fljótur til á vorin og myndar samfellda laufþekju sem skyggir á lágvaxnari tegundir sem eiga flestar erfitt uppdráttar þar sem hann nemur land. Myndar hann því tegundasnauðar breiður. Ekki er ljóst hversu lengi kerfillin getur viðhaldist í landi, en líklega er þar um einhverja áratugi að ræða. Algengustu vaxtarstaðir skógarkerfils eru gamlir garðar og tún sem hætt er að hirða um, vegkantar og skurð- og lækjarbakkar. Á undanförnum árum hefur hann víða tekið að vaxa í lúpínubreiðum en þar eru góð vaxtarskilyrði fyrir hann vegna mikils köfnunarefnis sem lúpínan hefur unnið úr lofti og skilað til jarðvegsins. Skógarkerfillinn er hávaxnari en lúpínan og virðist eiga gott með að ná yfirhöndinni í samkeppni við hana. Er þó lúpínan víða hörð í samkeppni við annan gróður. Það sem ef til vill ríður baggamuninn er það að kerfillinn er skuggaþolinn og getur vaxið upp af fræi inni í þéttri lúpínubreiðu. Lúpína þrífst hins vegar illa í skugga.

 

 

Allt bendir til að óhindruð útbreiðsla skógarkerfils um víðáttumikil gróin svæði leiði til fábreyttari gróðurs og verulegra breytinga á dýralífi, bæði smádýra og fugla. Útivistargildi svæða getur einnig rýrnað þar sem kerfillinn breiðist um sérstaklega í blómlendi og með ám og lækjum. Gömul tún sem ekki eru lengur nytjuð eyðileggjast á fáum árum og spillast sem ræktarland nái kerfillinn yfirhöndinni. Líklega þarf að endurrækta tún ef nýta á landið á nýjan leik. Rofhætta getur aukist í landi þar sem kerfill er ríkjandi vegna þess að undirgróður er þar rýr og yfirborð bert og illa varið fyrir vatnsrofi að vetrarlagi.

Er hægt að stemma stigu við útbreiðslu skógarkerfils?

Vilji fólk vera laust við skógarkerfil í landi sínu er besta ráðið að koma á veg fyrir að hann nái að fella fræ og skjóta rótum. Ef vart verður við ungar plöntur ber að eyða þeim.

 
Skógarkerfill fjölgar sér ekki aðeins af fræi, heldur einnig með vaxtaræxlun. 
Mjög erfitt er að stemma stigu við útbreiðslu kerfilsins þegar hann er kominn í land. Því er nauðsynlegt að uppræta hann strax og hans verður vart í nýju landi; tína upp einstakar plöntur þannig að þær nái ekki að blómstra. Helstu ráð til að eyða honum þar sem hann hefur búið um sig er að slá a.m.k. tvisvar á sumri eða beita hann. Sennilega er það helst sauðkindin sem getur haldið honum í skefjum, nautgripir bíta hann nokkuð en hross hafa að öllum líkindum lítinn áhuga á honum. Þá er hægt að stinga upp rætur, en það útheimtir mikla vinnu og fyrirhöfn og er aðeins framkvæmanlegt þar sem um stakar plöntur eða mjög litlar breiður er að ræða. Loks má nefna að tilraunir hafa verið gerðar til að eyða skógarkerfli með varnarefnum í Eyjafirði. Niðurstöður benda til þess að unnt sé að ná nokkrum árangri með þeim hætti.

Skógarkerfill myndar ekki langlífan fræforða og ef rætur nást upp ætti björninn að vera unninn. Óæskilegt þykir að beita illresiseyðandi efnum á skógarkerfil þar sem hann vex yfirleitt í fremur rökum jarðvegi eða við lækjar- og vatnsbakka. Því er hætta á að efnin berist út í vatn og valdi þar mengun og skaða á öðrum lífverum.

 

 

Og aðeins á jákvæðari nótum:
Djúpsteiktur í soð súpur og kálgrauta
Kerfill er fjölær planta og fer að stinga upp kollinum strax og snjóa leysir og frost að linast. En hægt fer hann, og oft er löng bið eftir að fyrstu blöðin náist inn eftir að fyrst fer að örla á þeim. Það er svolítið lakkrísbragð af kerfli og blöðin fíngerð. Nafnið kemur úr frönsku og þar hefur hann verið notaður frá fornu fari. Hann er góður sem salatjurt, meðan blöðin eru ný. Bragðið er milt og þó er plantan nokkuð stórvaxin. Það er því hægt að nota kerfilinn í miklum mæli einmitt í maímánuði meðan beðið er eftir að salatið spretti. Í Grasnytjum Björns er ekki minnst á kerfil en Eggert hefur hann í miklu uppáhaldi og vill nota saman við salat og til bragðbætis í „soð“súpur, stöppur og kálgrauta.

Kerfillinn blómstrar um mánaðamótin maí–júní hvítum blómklösum, sem ilma skemmtilega. Hann er vorjurt og eftir blómstrun er hann minna áberandi, enda hafa þá aðrar jurtir tekið við sem matplöntur, en það má slá hann, eins og önnur villt grös, til að fá ný blöð yfir sumarið. Fyrir utan að nota kerfilinn hráan og í heita rétti má nota hann í te. Blómin má djúpsteikja. Það er auðvelt og fljótlegt að þurrka hann en bragðið er ekki sterkt. Hann er talinn hafa bætandi áhrif á meltingu og losa slím úr lungum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir