Enn skorað á ráðherra

Byggðaráð Skagafjarðar ítrekaði á fundi sínum í gær ósk sýna um fund með ráðherra heilbrigðismála um málefni Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki.

Í svarbréfi ráðherra við fyrri bókanir byggðaráðs kemur fram að ráðuneyti heilbrigðismála hafi lagt  áherslu á að

gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar um land allt verði tryggð eins og kostur er miðað við aðstæður í

efnahagsmálum þjóðarinnar.  Þá hafi heilbrigðisráðherra m.a. í því skyni fundað með forstjórum heilbrigðisstofnana

og kynnt þeim áherslur sínar vegna þess samdráttar sem nauðsynlegur er í heilbrigðisþjónustunni. Jafnframt hafi

verið óskað eftir því við landlækni að hann fylgist með áhrifum aðgerða á heilbrigði þjóðarinnar og gæði og öryggi

heilbrigðisþjónustunnar.

Byggðaráð ítrekaði í gær fyrri bókanir sínar þess efnis að með  boðuðum niðurskurði sé vegið að grunnstoðum skagfirsks samfélags og velferðarþjónustu í héraðinu. Lýst er miklum áhyggjum yfir þeirri skerðingu á þjónustu sem framundan er. Þá sé algerlega óviðunandi að þjónusta ljósmæðra við barnshafandi konur verði skert og fæðingardeild Heilbrigðisstofnunarinnar lokað. Sveitarstjórn skorar því enn og aftur á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir endurskoðun á fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir