Enn eitt stórt tap Tindastólsmanna á Suðurnesjum

Á vef Keflavíkur segir af því að Tindastólsmenn fóru fýluferð til Keflavíkur síðastliðinn föstudadag þegar þeir töpuðu fyrir heimamönnum í Toyota Höllinni. Lokatölur leiksins voru 106-79 fyrir Keflavík og sáu Tindastólsmenn vart til sólar  í leiknum .

Í lýsingu á leiknum segir: -Keflvíkingar komust yfir í leiknum eftir um eina og hálfa mínútu og héldu þeirri forystu til leiksloka. Leikurinn var í raun einstefna og var Keflavík ávallt með yfirhöndina, en um 10-20 stig skildu liðin af út leikinn. Með sigrinum tókst Keflvíkingum að festa sig í annað sæti deildarinnar með 28 stig, tveimur stigum á eftir toppliði KR.

Hjá Keflavík var Hörður Axel Vilhjálmsson með flottan leik, en hann skoraði 29 stig. Skotnýting hans var mjög góð, en hann var með 83% í 2ja (5/6), 57% í 3ja (4/7) og 100% í vítum (7/7). Að sama skapi var Draelon Burns með fínan leik, en hann skoraði 21 stig, þar af 5 þrista í 10 skotum. Allir leikmenn Keflavíkur skoruðu stig í leiknum. --

Cedric Isom var með 30 stig fyrir Stólana og Donatas Visockis setti 20. Svavar Birgis var í áður óþekktu óstuði í leiknum, tók um 15 skot  en setti aðeins niður eitt og það utan 3ja stiga línunnar. Hann gerði því 3 stig í leiknum því ekki var honum einu sinni hleypt á vítalínuna til að laga tölfræðina.

Staða Tindastóls er ekki nógu efnileg í deildinni, liðið er nú í 10. sæti, og ef strákarnir ná ekki að rífa sig upp í næstu leikjum er sæti í úrslitakeppninni úr sögunni. Næsti leikur liðsins er gegn nýkrýndum bikarmeisturum Snæfells hér heima fimmtudaginn 4. mars. Þá þurfa stuðningsmenn Stólanna að koma hressir í Síkið og styðja liðið til sigurs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir