Enn einn sólardagur
Veit ekki hvað ég á að skrifa, skrifaði svo mikið í gær. Allt er við það sama hér, nema gönguæfingin gæti gengið betur. Skil ekki alveg hvernig Krishna, sú indverska sem ég hef minnst á áður í blogginu mínu, fer að því að labba svona hratt með göngugrindina.
Reyndar kemur hún hingað með spelkur á báðum og í grind, en í æfingunum er hún ekki með neinar spelkur lengur, ótrúlegur bati hjá henni. Bara uppörvandi.
Ég dett stundum í það að spá í hvernig í ósköpunum þetta samfélag hér í Delhí fúnkeri. Hvernig getur eldgamli tíminn lifað svona við hliðinni á nýjustu tækni, hvernig getur maður sem á hjól með kerru haft næga atvinnu við að flytja t.d. steypustyrktarjárnbúnt þegar nóg er til af flutningabílum sem hafa meiri flutningsgetu og hraða og hvaðan kemur allur þessi varningur sem fólk selur hér stanslaust á götunni og mörkuðunum? Mér er þetta svoldið óskiljanlegt ennþá. Ég reyni að ýminda mér að á Króknum væri fólk enn með beljur og búfénað inn á lóðinni sinni og að sumir ækju um í kerru með hest fyrir en aðrir nýjustu jeppunum. Eða t.d. að enn byggju einhverjir í moldarkofum við Skagfirðingabrautina.
Eftir æfingarnar í dag ákváðum við að heimsækja nýjan markað sem er á Janpath götu. Enginn taxi var tiltækur en eftir klukkutíma bið kom gamall hvítur bíll sem einhverntíman hefur þjónað þeim tilgangi að vera sendiráðsbíll enda er hann merktur Ambassy. Veit ekki hvaða tegund þetta er en hann hlýtur að vera frá sirka 1940. Bíllinn var stífbónaður og greinilegt að eigandanum var annt um hann. Þegar ég ætlaði upp í hann sá ég að það myndi nú taka á, sætin voru svo há að ég hefði allt eins getað verið að fara upp í jeppa, en þetta tókst. Ég hef aldrei fyrr séð bíl með alvöru tréinnréttingu í og á brúnunum voru skrautrammar, rétt við höfuðið á mér var lítil vifta, aldrei séð svoleiðis inn í bíl fyrr. Bílstjórinn sem líka var vel við aldur keyrði okkur mjög örugglega á markaðinn sem við þræddum samviskusamlega á enda. Maður er mikið til að sjá sömu hlutina á þessum mörkuðum og allir eru að selja kasmír og silki. En hvað haldið þið, áður en ég vissi af var móðir mín orðin klyfjuð af varningi. Við héldum heim á leið aftur í myrkri og rosalegri umferð, allir vinnandi menn á leið heim um kl. sjö á kvöldin hér í Delhí. Vonandi fáum við þennan bíl og bílstjóra næst þegar við bregðum okkur af bæ sem mér heyrist að verði á morgun. Miss Mollý þarf nefnilega að komast í moll til að kaupa sólvörn og vax á lappirnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.