Topplið Stjörnunnar aðeins of stór biti fyrir Stólastúlkur

Inga Sólveig á fullri ferð. Myndin tekin í október. MYND: DAVÍÐ MÁR
Inga Sólveig á fullri ferð. Myndin tekin í október. MYND: DAVÍÐ MÁR

Fyrri leikur í tvíhöfða einvígi Tindastóls og Stjörnunnar hófst kl. 17:15 í Síkinu í dag fyrir framan um hundrað áhorfendur. Lið Tindastóls hefur átt undir högg að sækja allt frá því í annarri umferð móts á meðan lið Garðbæinga hefur blómstrað og unnið alla leiki sína. Þrátt fyrir fína byrjun heimastúlkna þá reyndust gæðin meiri hjá gestunum og þær unnu sannfærandi sigur, 71-92.

Stjörnustúlkur fóru betur af stað í dag og leiddu 4-10 eftir þrjár mínútur. Þá kom frábær 13-0 kafli hjá heimaliðinu þar sem Eva Rún fór mikinn og lið Tindastóls hélt frumkvæðinu út fyrsta leikhlutann og leiddi að honum loknum með sjö stiga mun, 26-19. Það hefði mátt halda að Stólastúlkur hefðu móðgað gestina með þessari frammistöðu því Stjörnustúlkur tóku öll völd í öðrum leikhluta. Eftir fimm mínútna leik var staðan orðin 30-36 og með Diljá Ögn, sem er nú reyndar 180 sm há, í banastuði þá jókst munurinn fram að hléi en þá munaði tíu stigum. Staðan 42-52 í hálfleik.

Lið Tindastóll náði ekki að minnka muninn að ráði í þriðja leikhluta og munurinn yfirleitt 8-12 stig á liðunum. Að sama skapi tókst gestunum ekki að hrista Stólastúlkur af sér og það var því enn séns á endurkomu þegar fjórði leikhluti hófst og staðan 55-68. Stefanía Hermanns skellti í þrist í byrjun leikhlutans og minnkaði muninn í tíu stig en Elísabet Ólafsdóttir svaraði að bragði. Chloe og Emese gerðu síðan sitt hvora körfuna fyrir Tindastól og minnkuðu muninn í níu stig en þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka hafði gestunum tekist að mjaka muninum upp í 15 stig og vonir heimastúlkna fjöruðu út í framhaldinu.

Ágæt frammistaða gegn toppliði deildarinnar en betur má ef duga skal. Chloe Wanink var atkvæðamest með 31 stig í kvöld og ellefu fráköst. Emese Vida gerði tólf stig og tók sömuleiðis tólf fráköst, Eva var með 14 stig og Inga Sólveig sex. Í liði Stjörnunnar var Diljá Ögn með 28 stig og Riley Popplewell 18 og 15 fráköst. Gestirnir voru sterkari undir körfunni og hirtu 48 fráköst en lið Tindastóls 38 og þær töpuðu 14 boltum á meðan heimastúlkur glötuðu boltanum 19 sinnum.

Síðasti leikur Tindastóls í fyrstu umferð af þremur í vetur, verður á Meistaravöllum á laugardaginn kl. 16 en þar bíða KR-stúlkur eftir þeim. Vesturbæingar eru sem stendur í fjórða sæti deildarinnar með tíu stig eftir sjö leiki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir