Engin niðurstaða á fundi Leiðar ehf. og Blönduóssbæjar
Þann 1. september sl. funduðu fulltrúar bæjarstjórnar Blönduóss og formaður stjórnar Leiðar ehf., á Blönduósi um hugmyndir félagsins um Svínavatnsleið sunnan Blönduóss og þau ólíku sjónarmið sem uppi eru varðandi hana.
Fram kom hjá bæjarstjórninni andstaða við hugmyndir um gerð vegarins. Var þeim takmörkuðu fjármunum sem gera má ráð fyrir að verði ætlaðir til vegagerðar á næstunni talið betur varið til annarra framkvæmda en vegar þessa leið. Þetta væri byggðamál og mikill meirihluti íbúa Blönduóss vildi áfram að umferðin færi meðfram þéttbýlinu þar. Þar hefði verið byggð upp þjónusta fyrir umferðina og skipti þetta íbúa miklu máli. Sveitarfélagið færi með skipulagsvaldið og það væri nýlunda ef t.d. Vegagerðin hefði afskipti af þeim, segir á vef Leiðar ehf.
Af hálfu Leiðar ehf. var ítrekað að miðað væri við að um væri að ræða einkaframkvæmd þannig að gera mætti ráð fyrir að lítið sem ekkert þyrfti til framkvæmdarinnar af vegafé enda framkvæmdin þjóðhagslega afar arðsöm og ætti að fara langt með að standa undir sér fjárhagslega.
Fengin yrðu lán til framkvæmdarinnar sem greidd yrði með veggjöldum af þeim sem nýttu sér veginn. Þess mætti því vænta að talsvert yrði um að vegfarendur kysu eftir sem áður að aka um Blönduós án þess að þurfa að greiða fyrir það fremur en að greiða hugsanlega 400 til 500 kr. í veggjald til að komast um og því næsta víst að töluverð umferð yrði áfram um Blönduós þótt einhver fjöldi nýtti sér veg hina nýju leið. Auk þess héldi umferð um Þverárfjallsveg að fara áfram um Blönduós.
Allar vegstyttingar væru mikið byggðamál, sem m.a. leiddi til lækkunar flutningskostnaðar og aukins umferðaröryggis og sterkur vilji fulltrúa íbúa við Eyjafjörð og raunar meirihluti landsmanna væri til að stytta leið á þessum slóðum. Einnig var vakin athygli á að gera mætti ráð fyrir að Vegagerðin óskaði eftir að gert yrði ráð fyrir vegi þessa leið í skipulagi á grundvelli 28. gr. vegalaga nr. 80/2007.
Ekki varð nein niðurstaða af þessum fundi en skoðanaskipti voru bæði gagnleg og jákvæð. Af hálfu Leiðar ehf. eru hugmyndir um opinn fund á Blönduósi og er stefnt að honum öðru hvoru megin við mánaðamótin september / október.
/leid.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.