Engin aftaka veður í nóvember, segja spámenn Dalbæjar

Aðsend mynd.
Aðsend mynd.

Fundur Veðurklúbbs Dalbæjar var að þessu sinni haldin í Löngulaut, sem er aðstaða dagdvalar á neðri hæð Dalbæjar, þann 1. nóvember sl. Ellefu aðilar mættu og samræður allar hinar bestu, segir í skeyti spámanna til fjölmiðla.

„Við byrjuðum á að ræða tungl nóvembermánaðar sem kom upp þann 25. október síðastliðinn. Því næst fórum við yfir drauma og aðrar tilfinningar sem gætu bent okkur á möguleg veður næsta mánuðinn, eftir þá samantekt urðum við að mestu leyti sammála um að veðrið í nóvember yrði á margan hátt svipað og í október en þó með minni lofthita eins og árstíminn gefur svo sem til kynna,“ segja spámenn. Einn félaginn telur þó, eftir sínar draumfarir, að í lok nóvember komi einhver smá hvellur en þrátt fyrir það engin aftaka veður.

„Margt annað fór á milli aðila á þessum fundi eins og öðrum en til að halda dulúð klúbbsins áfram gangandi þá munum við að sjálfsögðu ekki gefa allt upp frekar en fyrri daginn, en viljir þú vita meira þá er ekkert annað að gera en að mæta á næsta fund!“

Því næst kemur kveðskapur í lokin, annars vegar sinn hvor eftir Hjálmar Freysteinsson og lokalimra eftir hinn dulúðlega Bjór.

Lognið í Hrútafirði

Í Hrútafirði er himinn blár
og heiðríkt daga alla.
Þar bærist ekki á höfði hár
hafirðu beran skalla.

Í útilegu.

„Ég er komin með hundleið‘ á köllum,
þeirra karlrembutilburðum öllum,“
mælti Halla eitt kvöld,
höstug og köld.
Þá kom Eyvindur alveg af fjöllum.

---

Nóvember trén afklæðir.
Gránar um hóla og hæðir.
Æ, vertu nú blíður
því veturinn bíður
með hækkandi moksturs upphæðir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir