En hver á að taka á sig kvótaskerðinguna?
Endurskoðunarnefnd um stjórn fiskveiða sem ríkisstjórnin skipaði, komst að þeirri niðurstöðu að stuðst skyldi við aflahlutdeildarkerfi. Yrði aflaheimildum ( kvóta) skipt í pott þar sem annars vegar væru aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir. Þetta er lykilatriðið. Annars vegar sé stuðst við kerfi þar sem menn fái tiltekinn hlutfallslegan veiðirétt, gegn gjaldi. Hins vegar sé tekinn frá kvóti sem ráðstafað sé til byggðalegra, félagslegra og afmarkaðra atvinnulegra úrræða. Í raun og veru eru þessi grundvallaratriði mjög skýr og auðskiljanleg og því illt að einhver misskilningur fari á flot um hvað þau þýða.
Hér er þess freistað að fjalla nokkuð frekar um þetta sjónarmið, með málefnalegum hætti.
Þegar sagt er að álitamál sé hvernig fara eigi með ráðstöfun aflaaukningar, eins og stundum heyrist sagt þá ratað inn á villugötur. Aflahlutdeildarkerfi felur það einmitt í sér að menn njóta þess þegar vel gengur að byggja upp fiskistofna. Hafa sem sagt hagsmuni af því að ganga um fiskistofnana af varúð og ábyrgð. En aflahlutdeildarkerfið felur það líka í sér að þegar talið er að fiskistofnar séu að minnka, þá taki handhafar fiskveiðiréttarins á sig skerðinguna. Þeir sem segja að handhafar fiskveiðiréttarins eigi ekki að njóta þess þegar vel gengur, hljóta þá líka að tala fyrir því að þeir þurfi heldur ekki að taka á sig fjárhagsskellinn þegar skera þarf niður.
En hver á að taka á sig kvótaskerðinguna?
Dveljum þá frekar við grundvallarspurninguna sem óhjákvæmilega er að spurt sé: Hver á að taka á sig skellinn, þegar kvótarnir eru skertir? Í umræðunni vantar ekki tillögur um hver eigi að njóta þess þegar vel gengur og kvótar stækka. Minna fer hins vegar fyrir hugmyndum um hverjir eigi að bera byrðarnar af því þegar kvótinn minnkar. Enn hef ég ekki heyrt aðrar tillögur um hver eigi að taka á sig skerðingu, en þá að það geri þeir sem hafi umráðarétt yfir kvótanum, fiskveiðiréttinum. Tökum dæmi af stöðunni við upphaf núgildandi fiskveiðiárs. Þá var kvóti aukinn í þorski en hann minnkaði í ýsu. Hver átti þá að njóta kvótaaukningarinnar í þorskinum og hver átti að taka á sig skellinn vegna ýsuskerðingarinnar? Þessu þurfa menn að svara.
Ef handhafar veiðiréttarins eiga ekki að njóta þess þegar vel gengur, þá hlýtur sú krafa að vakna að þeir eigi heldur ekki að gjalda þess, þegar skera þarf niður aflakvótana. Og þá vaknar spurningin, sem hér er spurt. Hver tekur á sig skellinn. Er það til dæmis ríkissjóður, skattborgararnir, eða einhver annar?
Reynslan sýnir okkur og það vita allir sem eitthvert inngrip hafa í sjávarútveginn, að sjaldnast virkar það þannig að allir kvótar aukist, eða minnki á sama tíma. Það er jafnan þannig að kvótarnir minnka og vaxa á víxl, eins og staðan á yfirstandandi fiskveiðiári sýnir. Kvóti í þorski minnkar kannski á sama tíma og hann vex í einhverjum öðrum tegundum og svo öfugt.
Misskilningur
Þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra svaraði fyrirspurn Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins um fiskveiðistjórnarmálin í síðustu viku, nefndi hún nokkur útfærsluatriði sem þyrfti að útkljá varðandi fiskveiðistjórnunina, jafnframt því að hún sagði samningaleiðina lagða til grundvallar. Það þýðir á mæltu máli væntanlega að fyrningarleiðin verði EKKI lögð til grundvallar. Því ber í sjálfu sér að fagna. Því það er þannig að þessar tvær leiðir eru gjörólíkar. Þær hafa tiltekna merkingu og engin ástæða til þess að snúa þannig út úr að þessar leiðir séu bara merkingarlaus hugtök. Það er einfaldlega ekki svo. Þetta eru skýr hugtök sem ekki þarf að velkjast í vafa um. Á þeim eru sjónarmiðin mismunandi eins og oft gerist í stórum málum. Um þessi mál má fræðast í skilmerkilegri skýrslu endurskoðunarnefndarinnar sem stjórnvöld settu á laggirnar.
En eitt gekk ekki upp hjá forsætisráðherra. Hún sagði að álitamál væri hvernig farið yrði með kvótaaukningu, hvort henni yrði ráðstafað til veiðiréttarhafa eður ei. Þetta hlýtur að vera misskilningur hjá ráðherranum. Þetta er nefnilega grundvallaratriði, eins og að framan hefur verið rakið. Samningaleiðin felur einmitt í sér að stuðst skuli við aflahlutdeildir, rétt eins og núna. Kvóti manna minnki ef aflakvótar eru skertir og kvóti manna aukist ef aflakvótar aukast. Það er kjarni málsins. Um það var enginn ágreiningur í nefndinni sem endurskoðaði fiskveiðilöggjöfina.
Vistvæn viðhorf
Fiskveiðihlutdeildarkerfið er alls ekki óumdeilt eins og allir vita og á því eru ýmsir gallar sem við eigum að taka á. Hlutverk margumræddrar endurskoðunarnefndar um fiskveiðistjórnun var einmitt að takast á við það verkefni.
Menn sem nýtingarréttinn hafa til tiltekins árafjölda hafa af því beina fjárhagslega hagsmuni að vel takist til í umgengni við fiskistofna. Með því að klippa á þetta samband, er hættan sú, sem við sjáum víða erlendis, að þessi hvati hverfi úr kerfinu, með afleiðingum sem við sjáum víða í kring um okkur. Þetta hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir alla þá sem láta sig sjávarútvegsmálin varða, ekki síst þá sem aðhyllast græn og vistvæn viðhorf, þegar kemur að umgengni við náttúruna.
Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.