Elvis í 75 ár - Presley-veisla í Miðgarði 11. mars
Það stefnir í rokk og ról í Menningarhúsinu Miðgarði þann 11. mars nk. en þá stígur á svið Friðrik Ómar ásamt landsliði hljóðfæraleikara og flytja þau allar helstu perlur Elvis Presley. Tilefnið er að í ár eru 75 ár frá fæðingu rokkkóngsins Elvis Presley en hann lést 16. ágúst árið 1977.
Á efnisskránni eru allar helstu dægurlagaperlur Presleys eins og Jailhouse Rock, Suspicious Minds, Can´t Help Falling In Love, Always On My Mind, In the Ghetto, Don´t Be Cruel ogfl.
„Ég hlakka gríðarlega mikið til að heimsækja Skagfirðinga og nærsveitunga. Ég kom með Frostrósum í desember sl. á ferð okkar um landið og var það mjög eftirminnilegt fyrir okkur öll að koma í endurbættan Miðgarð þar sem móttökurnar voru frábærar. Þetta er í fyrsta sinn sem ég held tónleika í Miðgarði sjálfur en ég hlakka bara til," segir Friðrik Ómar. „Á þessum tónleikum fá gestir okkar Elvis beint í æð. Það er enginn að fara að herma eftir Elvis heldur fá lögin endurnýjun lífdaga en við styðjumst þó mikið við upprunalegar útsetningar laganna."
Tónleikarnir hafa að undanförnu verið haldnir fyrir fullu húsi í Salnum í Kópavogi við góðar undirtektir.
Miðasala er hafin á www.midi.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.