„Elska þungan bassa og gott beat með óvæntum twistum“ / INGA BIRNA
Að þessu sinni er það Inga Birna Friðjónsdóttir sem svarar Tón-lystinni en á dögunum gaf hún út nýtt lag, One Night, ásamt félögu sinni, Karitas Hörpu Davíðsdóttur, en þær söngkonur skipa saman dúóið Hedband. Karitas kannast örugglega margir viið en hún sigraði The Voice Ísland snemma árs 2017. Með þeim í laginu er tónlistarmaðurinn og pródúsentinn Thorisson.
Inga Birna sem er elst þriggja systkina, býr nú í Reykjavík en hún bjó fyrstu tíu ár ævinnar í Svíþjóð en fluttist síðan Krókinn. Foreldrar hennar eru Auður sjúkraþjálfari og Friðjón læknir. „Þau búa þar enn gömlu hjúin en ég er búin að vera á flakki frá 16 ára aldri,“ segir hún. Ingu Birnu er margt til lista lagt, var stórefnilegur freestyle-dansari, er fatahönnuður að mennt en hefur nú síðustu misserin hellt sér út í tónlistina meðfram öllu öðru sem lífið býður upp á.
Hugmyndin að Hedband segir hún að hafi kviknað í gríni þegar þær stöllur sóttu lagasmíðanámskeið saman en var fljótlega snúið upp í alvöru þegar þær voru sammála um að hugmyndin væri of skemmtileg til að gera hana ekki að veruleika. „Síðasta púslið í spilið var síðan þegar Borgar (Thorisson) kom inn í þetta með hárrétta hljóðheiminn og þá var ekki aftur snúið. One Night er fyrst lag Hedband og Thorisson og er vinna við fleiri lög hafin enda stefnum við á að gefa út EP plötu snemma á næsta ári,“ segir Inga Birna.
„Mitt hljóðfæri er raddböndin eins og er en ég er byrjuð að læra á píanó,“ segir hún en ásamt því að vera í Hedband vinnur Inga Birna einnig að sínu fyrsta sóló-lagi sem væntanlegt er með haustinu.
Hvaða lag varstu að hlusta á? Afmælissönginn, sambýlsimaður minn er 29 ára í dag! [18. september]
Uppáhalds tónlistartímabil? Þau eru nú nokkur. Spice Girls og Backstreetboys tímabilið var geggjað.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég hef verið að uppgötva fullt af ungum og geggjuðum kvenkyns tónlistarmönnum í gegnum GRL PWR playlistann á Spotify. Elska þungan bassa og gott beat með óvæntum twistum í útsetningum. Norskar, sænskar og danskar tónlistarkonur eru að heilla mig mikið.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Þar fór fremstur meðal jafningja Sven Ingvars heitinn. Ég setti líka oft Sléttúlfana á á vínil og dansaði mikið með. Stuðmenn, Íslandsperlur og Eros Ramazotti var líka mikið spilað.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Big Willie Style, með Will Smith.
Hvaða græjur varstu þá með? Massívu græjurnar sem ég fékk frá foreldrum mínum þegar ég var ekki meira en 9 ára held ég. Risa hátalarar og geggjað sound, pabbi er græjukall.
Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Við gerum okkar besta sem Valgeir Guðjónsson samdi þegar Ísland urðu B-Heimsmeistarar árið 1989.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Sem betur fer tekst mér auðveldlega að gleyma þeim lögum en ég á mjög erfitt með t.d. Too Much To Ask með Niall Horan og lög í þeim stíl.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? One Night með Hedband og Thorisson!
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? One Night með Hedband og Thorisson... :D
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Þessi er easy, ég færi á Lifehouse einhverstaðar í Bandaríkjunum og tæki Elvu sys með!
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Ég hlustaði rosalega mikið á MUSICK með Maus.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Tina Dickow, sá hana og eiginmanninn, Helga Jónsson, koma fram í Norræna húsinu í sumar og þar þyrmdi yfir mig þessi öfunds tilfinning. Ég vissulega öfundaði þessi fallegu hjón af þeirra lífi en þau eru bæði geggjaðir tónlistarmenn og saman skapa þau músík og andrúmsloft sem heillar mig upp úr skónum.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? No Name Face með Lifehouse.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Darlings – Susanne Sundför
Obvious – ORKID
Mermaid – Skott
Let Me Fall – ZÖE
Way Down - MØ
Moln - Menke
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.