Eins og köld vatnsgusa frá ríkisvaldinu
Stofnuð hafa verið hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki en samtökin eru stofnuð vegna þess mikla niðurskurðar sem ríkisvaldið hefur gert stofnuninni. Nú þegar hefur þurft að grípa til þess að stefna að lokun fæðingardeildar við stofnunina frá 1. apríl auk þess sem fjöldi starfsmanna hefur misst vinnu sína að hluta til eða alveg.
Í forsvari fyrir samtökin er Helga Sigurbjörnsdóttir en aðspurð segist Helga hafa stofnað samtökin til þess að standa vörð um þá grunnþjónustu sem heilbrigðisstofnunin veitir íbúum á svæðinu. –Það má segja að með þessum niðurskurði förum við rúma öld aftur í tímann eða aftur til þess tíma þar sem ekki var starfandi ljósmóðir í hverju héraði, segir Helga. –Við heimamenn höfum gefið þessari stofnun gríðarlega mikla fjármuni sem notaðir hafa verið til tækjakaupa og uppbyggingar hennar og má því segja að við höfum staðið þétt við bakið á ríkisvaldinu við reksturinn. Eins hafa íbúar verið ólatir við að leggja stofnuninni lið með alls kyns sjálfboðaliða starfi. Það er því líkt og köld vatnsgusa frá ríkisvaldinu að við skulum lenda í niðurskurði sem er tvöfaldur á við það sem annars staðar þekkist, bætir Helga við.
Helga hefur nú þegar fengið fjölda samtaka til liðs við sig um stofnun hollvinasamtaka sem standa munu vörð um heilbrigðisstofnunina okkar. –Við munum á næstu dögum grípa til aðgerða og verða sýnileg í þessari baráttu okkar. Okkar krafa er sú að ríkisvaldið leiðrétti þennan niðurskurð og leyfi stofnuninni að sitja við sama borð og aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.