Einn Hafnarfjarðarbrandari og annar úr Breiðholti

Fyrir nokkrum árum kynntist ég manni í Hafnarfirði sem sagði sínar farir ekki sléttar. Að lokinni áfengismeðferð hjá SÁÁ tók hann þá ákvörðun að halda sig frá áfengisneyslu sem allra mest á sínum eigin forsendum. Hann sökkti sér niður í AA-fræðin og aflaði sér lesefnis af þeim toga erlendis frá. Hann hafnaði allri leiðsögn og ,,hjálp“ sem reynt var að troða upp á hann, og leyfði sér meira að segja að hafa uppi efasemdir um réttmæti þess hvernig SÁÁ-menn útfæra sum atriði í AA-fræðunum.

            Við svo búið var maðurinn orðinn stórsyndari í augum SÁÁ-liðsins, og svo hófust ofsóknir gegn honum sem lýstu sér í því, að það var nánast sama hvert hann lagði leið sína, þá varð á vegi hans fólk sem sendi honum áreitin skilaboð sem ekki var hægt að misskilja. Tóku þátt í þessu sumir af hans nánustu vinum og vandamönnum, en einnig vandalaust fólk. (Þess skal getið hér til fróðleiks, að hver einasti meðferðarþegi hjá SÁÁ er látinn gefa upp nöfn nánustu vina sinna og vandamanna. Þeim eru síðan skrifuð bréf frá SÁÁ og reynt að fá þá til meðvirkni í meðferðarframvindunni og hjáfræðunum sem þar eru lögð til grundvallar. Þetta er nú sértrúarsöfnuður í lagi!)

            Þessar ofsóknir voru bæði hatrammar og langvarandi og linnti þeim ekki fyrr en maðurinn stillti sér upp með hlaðna haglabyssu á stofugólfinu heima hjá sér og sagði: ,,Hættið þessu eða ég skýt mig!“ Þá fyrst fékk hann frið, en var í kjölfarið greindur með geðraskanir og ranghugmyndir, og hefur verið á örorkubótum síðan.

            Maðurinn tjáði mér að honum hefði gengið ágætlega að halda sér frá áfengisneyslu þar til eineltið byrjaði, en eftir að það átti sér stað hefur hann drukkið meira og minna, og verður eðlilega tíðrætt um þessa lífsreynslu sína þegar hann fær sér í glas.

            Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvort þessi upplifun mannsins kunni að einhverju leyti að hafa byggst á ranghugmyndum, en verð að játa að mig brestur forsendur til að leggja á það raunhæft og endanlegt mat. Um hitt þarf ekki að velkjast í vafa að það þarf hraust bein og sterkan karakter til að þola ofsóknir án þess að ganga af göflunum, einkum ef eineltið er þaulskipulagt og langvinnt, og margir taka þátt í því.

            Og hvort meðferðarfólkið sendir ekki frá sér skilaboð, geta menn rétt markað af því, að meðan venjulegir Íslendingar nota hefðbundin kveðjuorð, svo sem ,,bless", ,,vertu sæll“ eða ,,lifðu heill“, þá kveður þetta meðferðarhyski oft og iðulega með orðunum: ,,Farðu vel með þig!“ Í þeirri ,,kveðju“ eru vissulega fólgin skýr skilaboð, auk þess að hún felur í sér blygðunarlausa íhlutunarsemi um einkahagi annarra.

            Annar kunningi minn, brottfluttur Króksari sem býr uppi í Breiðholti, innritaðist í áfengismeðferð hjá SÁÁ, en fór þaðan í fússi og datt í það. Skömmu síðar hringdi hann í mig í miklu uppnámi og tilkynnti mér að nú væru menn úr þessum meðferðargeira að reyna að brjótast inn í íbúð hans í þeim tilgangi að svipta hann sjálfræði.

            Maðurinn bað mig í ofboði að gefa sér upp nafn einhvers lögfræðings sem hann gæti sagst hafa í bakhöndinni, ef þannig mætti takast að lægja ofsa þessara aðsóknarmanna. Þá var látinn hinn ágæti lögmaður Örn Clausen sem hafði reynst mörgum haukur í horni, svo ég ráðlagði manninum að nefna nafn Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns. Síðan slitum við símtalinu. Maðurinn hringdi aftur í mig nokkrum mínútum síðar og sagði að þetta hefði hrifið. Þeir hefðu hunskast í burtu þegar hann nefndi lögfræðinginn á nafn.

            Ef sú er raunin að SÁÁ haldi úti neti aðgerðarsinna til að ,,fylgjast með“ og áreita það fólk sem samtökin telja að fari villur vegar, eins og þau tvö dæmi sem hér hafa verið rakin virðast gefa tilefni til að álykta, þá er öllu velsæmi vissulega ofboðið.

            Það er í raun hörmulegt, að þeir sem kjósa að halda sig frá áfengi og öðrum vímuefnum á sínum eigin forsendum, skuli ekki hafa frið til þess vegna áreitni frá fólki sem er illa þjakað af rörsýni og rétttrúnaðarkomplexum. Og það er alveg jafn forkastanlegt, að þeir sem kjósa að neyta vímugjafa og geta gert það án þess að skaða aðra, skuli ekki hafa frið til þess vegna áreitni frá fólki sem er sárlega bagað af trúarofstæki og áfengis- og lyfjafóbíu, og málar dauðann og djöfulinn á vegginn í tíma og ótíma. Það er fyrir löngu orðið tímabært að allir þeir sem hafa orðið fyrir áreitni og ofsóknum frá svona skríl, stigi fram og segi sögu sína opinberlega.

Guðmundur Sigurður Jóhannsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir