Eflum ferðaþjónustu í Norðvesturkjördæmi | Heiðdís Rós Eyjólfsdóttir skrifar
Ferðaþjónustan hefur verið ein af leiðandi ástæðum fyrir vaxtaþrótti íslensks samfélags undanfarin ár og eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu hefur vaxið af miklum krafti þótt jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafi leitt til ákveðinnar hnignunar. Þrátt fyrir allt hefur fjöldi erlendra ferðamanna á fyrstu níu mánuðum ársins verið lítillega yfir fjölda síðasta árs en fjöldi gistinátta hefur hins vegar dregist saman. Eins og kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofunnar í nóvember er búist við því að fjöldi erlendra ferðamanna haldist stöðugur á næsta ári í 2,3 milljónum.
Ef litið er til ársins 2022 sést að það ár nam ferðaþjónustan 7,8% af VLF (vergri landsframleiðslu) og skattspor hennar var 155 milljarðar kr. Talið er að ferðaþjónustan skapi um þriðjung gjaldeyristekna landsins og hefur hún á tiltölulega fáum árum vaxið í að vera ein af meginundirstöðugreinum íslensks hagkerfis.
Það ætti að vera öllum ljóst að ferðaþjónustan hefur gjörbreytt stöðu Íslands í viðskiptum við útlönd og að hún hafi gjörbreytt byggðum og búum landsins. Það er þó misjafnt hvaða landshlutar fá að njóta mests ávinnings af þessari starfsemi, og það er með öllu ljóst að það þarf að efla samkeppnishæfni á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Hlutfall þessara landshluta af atvinnutekjum ferðaþjónustu á landsvísu nemur einungis 4% og er því tilefni að líta til aðgerða til að auka aðdráttarafl þessara landshluta, fyrir hvort tveggja útlenska ferðamenn sem og íslenska.
Aðgerðir sem auka afþreyingu og fjölbreytni í menningu og veitingum, ásamt bættu aðgengi og sterkari tengslum við sögu og einkenni staða, er eitthvað sem heimamenn munu njóta jafnvel enn meira en ferðamenn. Það eru til skýr dæmi um staði þar sem þróun ferðaþjónustu hefur haft í för með sér talsverðar breytingar í lýðfræði áfangastaða, eins og á eyjunni Lofoten í norður Noregi þar sem mikill munur hefur verið á íbúðaþróun eftir að ferðaþjónustan fór að vaxa.[1] Það er skýrt að til staðar er fylgni á milli vel þróaðra áfangastaða og aukins aðdráttarafls fyrir nýja íbúa, m.a. vegna nýrra starfa sem skapast. Niðurstöður könnunar Ferðamálastofu árið 2023 sem Rannsóknamiðstöð ferðamála hafði umsjón með sýnir að meirihluti landsmanna styður áframhaldandi markaðssetningu sinnar heimabyggðar.
Til þess að efla Norðvesturlandið allt þarf að huga að því sem betur má gera til að auka aðdráttarafl svæðisins. Sveitafélögin og atvinnurekendur í ferðaþjónustu þurfa að vinna saman. Án efa þarf að bæta samgöngur og aðgengi að náttúruperlum umdæmisins og fara þarf í stórátak í að markaðsetja Norðvesturland. Mikilsvægt er fá ferðamenn til að stoppa og upplifa það sem Norðvesturland hefur upp á að bjóða. Það er öllum ljóst að landsvæðið er menningar- og söguríkt og má þá m.a. benda til Grettis sögu, Skagafjarðar sem var hringamiðja Sturlungu og einnig þess að Hólaskóli, einn elsti skóli Evrópu sem hefur verið miðja atburða í gegnum alla Íslandssöguna.[2] Í Húnabyggð eru einnig sögulegir staðir. Þar má nefna Þrístapa, þar sem síðasta aftakan fór fram á íslandi. Þar voru tekin af lífi Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir þann 12 janúar 1830. Náttúran er einnig eitthvað sem svæðið getur nýtt sem segul fyrir aukna ferðaþjónustu, enda er mikið um fallegar gönguleiðir en það skortir mögulega góðar merkingar og aðstöðu. Í Húnavatnssýslu eru margar magnaðar náttúruperlur. í Húnaþingi vestra er Vatnsnes þar sem mikið er af sel og mjög fjölskrúðugt fuglalíf, Borgarvirki og Hvítserkur. Ekki má gleyma hinu tilkomumikla Kolugljúfri og minna þekktri leið innar í Víðidal sem ég sjálf gekk í ágúst, að Bergárfoss og Ferðamannaklettum. Húnabyggð státar einnig af fallegri náttúru eins og Kálfshamarsvík á Skaga þar stefnt er að því að laga aðgengi næsta sumar, Hrútey, fossarnir í Vatnsdalsá, merktar gönguleiðir í Vatnsdal og nágrenni Blönduós. Á Blönduósi er falleg gönguleið meðfram Blöndu að sjónum í gamla bænum þar sem margar gamlar byggingar er að sjá. Í gamlabænum á Blönduósi sjást oft hvalir í sjónum og eitt fegursta sólarlag íslands, þegar sólin sest í sjóinn með Strandafjöllin í baksýn. Afar spennandi verkefni er að hefjast þar sem hanna á göngubrú yfir ós Blöndu og jafnvel gera göngustíg úr gamla bænum meðfram sjónum inn að svokölluðu draugagili með ægifögru útsýni yfir Blönduósbæ, ósinn og sjóinn, fagurt útsýni eins langt og augað eygir yfir Húnaflóa.
Aukin ferðaþjónusta er vissulega ein leið til að auka efnahagsvöxt á landsbyggðinni og hefur m.a. leitt til þess að landshlutar og sveitarfélög blómstri meira en áður. Það er einnig ljóst að samhliða vexti ferðaþjónustu fylgi aukin fjölbreytni atvinnulífs og að íbúar flytji í auknum mæli til þessara byggða. Ferðaþjónustan hefur verið lyftistöng í samfélögum í kringum landið sem áður bjuggu við samdrátt, og ég tel að Norðvesturlandið hefur vissulega mikið inni.[3]
Við í Flokki fólksins erum að berjast fyrir því að okkar brothættu byggðir sem hafa undir högg að sækja séu reistar upp. Tillögur okkar um að auka réttindi íbúa sjávarbyggða til að nýta sjávarauðlindina með sanngjarnari reglum í strandveiðum er ein leið sem við höfum barist fyrir landsbyggðinni. Að byggja hvata til að auka ferðaþjónustuna á landsvæðum eins og á Norðvesturlandi , sem við teljum að á mikið inni, er önnur leið til þess.
Heiðdís Rós Eyjólfsdóttir,
skipar 4. sæti á lista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.
- - - - - - -
[1] SSNV Staða og samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra, bls. 11.
[2] Sama heimild, bls. 15.
[3] Samtök ferðaþjónustunnar – Staðreyndir um ferðaþjónustu Kosningar 2024.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.