Efling félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins
Strandveiðifélag Íslands styður fyllilega við tillögu til þingsályktunar um sem lögð var fram af Bjarna Jónssyni (flm), ásamt meðflutningsmönnunum Steinunni Þóru Árnadóttur, Jódísi Skúladóttur, Orra Páli Jóhannssyni og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, þann 15. sept. sl.
Í þingsályktunartillögunni kemur fram að Alþingi felur matvælaráðherra að efla félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins með aukinni hlutdeild þess í heildarafla. Hlutdeildin fari úr 5,3% upp í 8,3%. Ráðherra er einnig falið að endurskoða skiptingu aflamagns innan kerfisins og markmiðum aðgerða innan þess með það að markmiði að efla hlut strandveiða.
Strandveiðar eru skynsamleg byggðastefna og þjóðhagslega mikilvægar. Þær auka nýliðun, atvinnu, afleidd störf, starfsemi fiskmarkaða og styðja sérstaklega brothættar byggðir. Þessi aðgerð yki fyrirsjáanleika í viðkvæmri atvinnugrein, minnkaði sveiflur vegna kvótaskerðingar sem hefur meiri áhrif á smærri útgerðir en þær stærri.
Strandveiðar eru nauðsynleg mótvægisaðgerð við aukna samþjöppun og fákeppni í greininni og forsenda þess að kvótalausar fiskvinnslur séu rekstrarhæfar með því að útvega þeim gæðahráefni í gegnum fiskmarkaði.
STÍ vill því að stærsti hluti félagslega kerfisins renni til strandveiða og dagróðrabáta enda hefur sýnt sig að þær nýtast mörgum og eru jákvæðar frá öllum hliðum: Samfélagslegum, efnahagslegum, atvinnu- og fjárhagslegum, umhverfisáhrifum, bæði rafvæðingu og áhrifum á hafsbotn, nýliðun, kvótalausum útgerðum og fiskvinnslum.
Strandveiðum var komið á árið 2009 til að bregðast við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að íslenska kvótakerfið í þáverandi útfærslu væri mannréttindabrot. Árið 2015 ítrekaði nefndin að úfærsla strandveiða uppfyllir enn ekki skilyrði sem nefnd voru í álitinu. Árið 2022 á enn hið sama við.
Við hvetjum því þingheim til að styðja þingsályktunartillöguna enda gæti hún bjargað næstu strandveiðivertíð eftir ófarir síðustu vertíðar.
Stjórn Strandveiðifélags Íslands
Álfheiður Eymarsdóttir
Axel Waltersson
Gísli Páll Guðjónsson
Gísli Einar Sverrisson
Hjörtur Sævar Steinason
Sigurður Þórðarson
Sigurjón Þórðarson
Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson
Þórólfur Júlían Dagsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.