„Ef satt skal segja þá var ég alls ekki viðbúinn kuldanum“
Feykir forvitnaðist í fyrrasumar um upplifun nokkurra þeirra erlendu fótboltakempna sem spiluðu með Tindastóli. Útlendingarnir eru talsvert færri í sumar en Feykir ákvað engu að síður að taka upp þráðinn. Að þessu sinni er það Úrúgvæinn Santiago Fernandez, 27 ára, sem svarar. Hann gekk til liðs við Stólana í vor og hefur staðið sig með sóma í marki liðsins í sumar og hefur reyndar haft talsvert að gera þar.
Feykir byrjaði á að spyrja kappann hvernig það kom til að hann kom til Íslands að spila fótbolta. „Það var nú einfaldlega þannig að ég var að spila á Ibiza á Spáni þegar ég fékk tilboð í gegnum umboðsmanninn minn um að spila hér í sumar,“ segir Santiago.
Hvað hefur komið þér mest á óvart síðan þú komst til Íslands? „Það hefur komið mér þægilega á óvart hversu mikil mannleg gæði eru hér, fólkið hér er algjörlega frábært og kemur fram við mig af virðingu.“
Hvernig finnst þér að vera hluti af liði Tindastóls? „Ég er verulega stoltur af að vera hluti af þessu liði og það sem ég met mest er samheldnin og andinn meðal leikmanna.“
Hver er uppáhalds liðsfélagi þinn? „Ég get nú ekki gert upp á milli manna enda eru þetta allt frábærir drengir. Engu að síður þá líkar mér vel við Atla [Dag Stefánsson] markmann enda æfum við mikið saman á hverjum degi og hann hefur verið mér rosalega hjálplegur í undirbúningi fyrir leiki.“
Hvaða væntingar hafðirðu til sumarsins á Íslandi? „Ég kom hingað með það í huga að halda mér í góðu formi á meðan ég væri í sumarfríi frá boltanum á Spáni. En eins og alls staðar annars staðar þá snýst ekki allt um fótbolta því það er gaman að kynnast öðruvísi menningu og læra sem mest á meðan ég er á eyjunni.“
Hvaða leikmaður hefur verið þér fyrirmynd? „Enginn sérstakur en ég reyni að læra sem mest af liðsfélögum mínum til að bæta leik minn eins og kostur er.“
Hvað gerir þú annað hér á Sauðárkróki en að spila fótbolta? „Lífið hér á Sauðárkróki er talsvert þægilegra en í mörgum öðrum bæjum. Ég hef verið talsvert á ferðinni hér til að kynnast sem flestu, meira að segja gengið á Tindastól. Vanalega fer ég þó í ræktina á morgnana og tek það síðan rólega fram að aðal æfingu seinni part dags.“
Hvað hefur verið erfiðast við að dvelja á Íslandi? „Ef satt skal segja þá var ég alls ekki viðbúinn kuldanum. Það var ekki auðvelt til að byrja með en þetta er farið að venjast. Það er gaman að segja frá því að í fyrstu leikjunum í sumar þá varð ég að fara í sturtu í hálfleik til að koma smá yl í kroppinn svo ég væri klár fyrir síðari hálfleik!“
Feykir þakkar Santiago fyrir spjallið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.