Dýrmætum gripum slátrað í Miðfirði

MYND AF VEF BÆNDABLAÐSINS
MYND AF VEF BÆNDABLAÐSINS

„Niðurstöður arfgerðarsýna úr fjárstofninum á bænum Bergsstöðum í Miðfirði sýna að mörgum dýrmætum gripum var slátrað og niðurstöðurnar því mikið áfall fyrir bændur,“ segir í frétt sem birt var á vef Bændablaðsins í gær. Í apríl kom upp riða í Miðfirði á bænum Bergsstöðum og í kjölfarið var öllu fé lógað þar, sem og á bænum Syðri-Urriðaá, að skipan Matvælastofnunar. 

Tekin voru sýni úr 669 gripum þegar fjárstofninn á Bergsstöðum var skorinn niður vegna riðu fyrr á þessu ári. Það kom í ljós að 139 gripir voru með afrgerðir sem veita mögulega mótstöðu gegn riðu og af þeim voru níu kindur með T137 breytileikann, sem er talinn eitt dýrmætasta vopnið í baráttunni gegn riðu. Elín Anna Skúladóttir bóndi á Bergsstöðum segir að arfgerðir sem veita mögulega mótstöðu gegn riðu hafi verið dreifðar um hjörðina. Þetta hafi ekki afmarkast við lítinn ættlegg. Hún sagði einnig tvo hrúta sem þau seldu nýlega hafa verið drepna eftir að riða kom upp á bænum, sem síðar kom í ljós að báru mótstöðu gegn riðu, annar með T137 breytileikann.

Á Urriðaá, þar sem fé var líka skorið niður, fundust sjö gripir með þennan sama breytileika T137 og tugir gripa með aðrar mögulega verndandi arfgerðir.

Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð, frumkvöðull í riðurannsóknum á Íslandi, sagði í samtali við Bændablaðið að fjárstofninn á Bergsstöðum hafi verið með sérlega stórt hlutfall T137 arfgerðarinnar miðað við fjárstofninn á landsvísu. Á Bergsstöðum var þetta 1,4 prósent, á meðan fjárstofninn á landinu öllu er einungis með örfá prómill. Karólína nefndi í því samhengi tölur frá RML þar sem arfgerðagreiningar um 30 þúsund kinda frá öllu landinu voru skoðaðar, en einungis 83 í þeim hópi hafi verið með T137. Hingað til hafi arfgerðin einungis verið þekkt í átta hjörðum. Því ætti það að vera öllum ljóst að fjárstofninn á Bergsstöðum var gríðarlega dýrmætur stofn.

Nánar má lesa um málið á vef Bændablaðisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir